Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 30.3.2007
Kveldúlfur er kominn í kellinguna mína
Alveg fer maður að sjá rúmið sitt í hillingum undir kveld á föstudegi. Hugsa sér að maður sé orðinn svo háaldraður, fúinn og fótlúinn að maður þiggi ekki síðdegissöngvatn í boði ráðuneytis. Dæs. Nei, bókin, bloggið og beddinn hafa vinninginn.
Ráðstefnan í gær og dag var hin ágætasta. Margt skemmtilegt og heillavænlegt að gerast í málefnum fatlaðra, svo mikið er víst. Fólkið okkar á SSR stóð sig með prýði.
Í fyrramálið er brunch hjá Sigurveigu. Þá verður nú gerð tilraun til að finna lausn lífsgátunnar. Og svo verður hlegið af hjartans lyst. Og borðað. Mikið verður nú hesthúsað, smjattað og sporðrennt. Er ekki gott að sumir hlutir eru svo dásamlega fyrirsjáanlegir?
Fuglarnir eru í óðaönn við að undirbúa árstíðaskipti og syngja nú á voginum, daginn út og kvöldið inn. Það er eins og þeir haldi að það sé vor í nánd. Ég syng með þeim stundum. En stundum ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Miðvikudagur, 28.3.2007
En lille en
![]() |
Dönskum karlmönnum á miðjum aldri hættir til að detta úr stiga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 28.3.2007
Vinklar
Hvar er púnkturinn milli austur og vesturs? Er púnktur?



Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 25.3.2007
Sunnudagur til sælu
Kvæðabálkurinn var fallega sunginn og hljómsveitin fjarska flott. Þó að engin rökleg tenging sé á milli Áltanessins og bálksins(allavega ekki sem ég veit um) hugsa ég alltaf um þann stað og brimið við ströndina þegar ég upplifi verkið. Það er reyndar ekki briminu fyrir að fara á þessari mynd, hvar húsin speglast í sjónum.
Einkanlega tók hún Hildigunnur bloggvinkona mín sig vel út. Carmina Burana er alltaf eitthvert magnaðasta verk sem ég heyri. Ég naut hvers tóns, hvers andartaks. Mæli með þessu við alla.
Í dag fékk ég gjöf frá Japan. Rosalega flotta handtösku með japönsku (nútíma-) mynstri. Voðalega varð ég glöð yfir þessu!
Japan og Carmina, sunnudagur, þvottar, skutl, símtöl, undirbúningur fyrir vikuna. Harla gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 25.3.2007
Carmina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 23.3.2007
Minning um vinkonu
Friðrika Jóhannesdóttir f. 23.09.1916 - d. 16.03.2007 | ||
Það er oft heiðríkja yfir Háteigsveginum. Innandyra á númer 28 hefur heiðríkja huga og hjarta ríkt áratugum saman. Mér hefur alltaf þótt sérstakur stíll yfir því að búa við Háteigsveg númer 28 og hafa símanúmerið 10748, sem síðar breyttist í 551-0748. Þegar Guðbrandur svaraði með sinni alkunnu bassaraust í símann, vissi maður að hnötturinn héldi áfram að snúast, - allavega þann daginn. Síðar hætti hann að svara í símann - og Fía tók við. Og hnötturinn hélt áfram að snúast. Alltaf tók hún þeim sem hringdi innilega. Þá tók hún gestum og gangandi ekki síður fagnandi og fannst alltaf hér áður fyrr, að þá væri nú tækifæri til að gera sér glaðan dag yfir mat, drykk, kaffi og kruðeríi. Fía var einstaklega æðrulaus, jafnlynd, hreinlynd og tilgerðarlaus manneskja. Hún yfirvegaði hlutina, komst að sinni niðurstöðu og hélt jafnan þétt við hana, jafnvel þó viðmælandi væri ekki alltaf sammála. Fyrst þegar við kynntumst var ég ung og afskaplega viss um að ég hefði talsvert vit á flestum hlutum. Þá greindi okkur stundum á um marga grundvallarþætti tilverunnar. Ykkur unga fólkið skortir yfirsýn og víðsýni sagði hún gjarnan af sinni einlægu hreinskilni - og hafði vitanlega rétt fyrir sér. Það sem mér fannst þetta nú skortur á þessum sömu þáttum hjá henni! En það var þá. Eftir því sem árin liðu komst ég betur og betur að því, hvern mann Fía hafði að geyma. Og hvílíkur maður. Það sem mér fannst áður vottur af galla hjá henni, fór mér að finnast hinn mesti kostur. Með árunum nálguðumst við í viðhorfum, yfirsýn og skilningi og gátum betur skilið sjónarhorn hvorrar annarrar. Við gátum rætt um lífið í fjölleikahúsi, úrtöku fyrir hæl á leista, kenningar Helga Pjéturss eða bara framvinduna í síðdegissápu sjónvarpsins. Við ræddum lífið í breidd og lengd og stundum endalok þess líka. Síðustu misserin drukkum við gjarnan Neskaffi með þessum samræðum og fannst báðum gott. Heimili þeirra Fíu og Guðbrandar var heimur út af fyrir sig. Nostursemi, kærleikur og virðing fyrir lífinu birtust þar í uppröðun hluta, fjölskyldumyndum, bókasafni, gömlum leikföngum og listaverkum eftir barnabörnin. Ró, friður, jafnvægi, stöðugleiki, kaffilykt, hlýja. Rigning bylur á glugga og útvarpið malar. Guðbrandur dottar í græna stólnum en veit samt alveg hvað er í fréttum, og Fía bograr í gufumettuðu eldhúsinu við að undirbúa einhverja dýrlega magafyllina. Hvílíkar minningar. Þessu heimili gleymir maður aldrei og ekki heldur húsbændum þar, glæsilegum, gáfuðum hjónum, fremstum meðal jafningja. 35 ár skildu okkur Fíu að í aldri og í 37 ár stóð okkar vinátta. Aldrei bara á hana skugga, hvort heldur það gaf á bátinn eða siglt var á sléttum sjó. Fölskvalausari, dýrmætari og traustari vináttu getur enginn átt. Hjartfólgin vinkona er nú kært kvödd og henni þakkað fyrir allt það sem hún var mér og mínum. Lífið var henni gjöfult og hún lifði því af stolti, æðruleysi og þakklæti. Það munum við hugga okkur við, þegar söknuðurinn sækir að. Og heiðríkja er yfir Háteigsvegi. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 18.3.2007
Berlínardagar
Það fyrsta sem vekur athygli manns við að koma á afvikinn stað á flugvellinum í Berlin er yfirþyrmandi sítrónulykt. Það er engu líkara en að það hafi verið kreist úr þrjúþúsund sítrónum yfir gólf, salerni og vaska. Maður kann sko ekki við framkalla neina kúkalykt á svoddan stað.
Röðin og reglan er annað, sem vekur athygli manns. Alles in ordnung. Ég átti eftir að sjá merki þess í dömu-tusku-búðum, þar sem raðað var eftir 1) litasjétteringum; 2) stærðum; 3) undirstærðum, s.s. extra víddum, eða extra stuttum buxum o.s.frv. 3) merkjum. Öldungis dásamlegt og kemur í veg fyrir mörg óþarfa herðatrjáslög og vafstur. Ég átti líka eftir að sjá reglufestuna í umferðinni, sem er afskaplega temmileg og kurteisleg. Ég ég heyrði 2svar í bílflautu og 2svar í babú-bíl. Ein sjón lét mig ekki ósnortna: Óskemmdir almenningssímar sem nýbúið er að pússa með Silvo og Ajax. Allt er svo strokið, sortérað og sjænað.
Hótelið okkar var Hollywood Media Hotel í anda kvikmyndafroðuborgarinnar. Ég var fyrirfram uppfull af fordómum, enda er ég alin upp á Bergman og Fellini, mánudagsmyndum og frönskum kvikmyndavikum. En þetta kom skemmilega á óvart og reyndist hiið besta hótel. Ég fann auðvitað frá fyrstu stund hvað ég féll vel að Hollywood umhverfinu og fannst ég loksins kominn í hæfandi félagsskap. Til að mynda leið mér sérdeilis vel á rauða dreglinum fyrir framan stórfenglegar, sjálfvirkar aðaldyrnar. Ég hefði samt afþakkað hlutverk í Hollywood og einungis tekið að mér hlutverk hjá Bergman og Fellini......... Eða þannig.
Hvert herbergi á hótelinu var tileinkað leikara, okkar einhverjum Þjóðverja sem hefur slysast til að leika í (þrjú-bíó) mynd einhvern tíman á sjötta áratug síðustu aldar. Svo lítið var herbergið að væri maður staddur í rúminu, þurfti maður einungis að halla sér dullítið til hægri og þá var maður kominn á baðherbergið. (Ja, öldin var önnur á Fuerteventura: Þar var íbúðin svo stór og víðáttumikil, að maður þurfti að hafa með sér nesti á milli herbergja.) Á baðherberginu á Hollywood Media voru öll þægindi, nema venjulegar, heiðarlegar sápur. Allt sápukyns var í óaðgengilegum skömmtunarumbúðum sem þurfti einstakt lag við að ná dropa úr. 
Ég þurfti að taka tilhlaup og kasta mér á sápuskammtarann af öllum mínum þunga til að ná hreinsileginum út.
Berlín hefur upp á geysimargt að bjóða. Sagan kallar á mann við hvert fótmál og það er margt að skoða og upplifa. Menningin blómstrar, það eru leikhús, óperur, tónleikar, listaverkasýningar og svo mætti lengi telja. Maturinn er góður og á mjög hóflegu verði. Vín og bjór eru partur af daglegu lífi og úrvalið óendanlegt. Unnt er að fá ógerilsneyddan bjór af krana, sem er besti bjór í heimi, ekki síst vegna þess að maður fær enga timburmenn af honum, jafnvel þó maður fái sér þrjá. Kaffihúsin í Berlín eru mörg og andrúmsloft þeirra kæruleysilegt, hlýlegt og notalegt, alveg eins og það á að vera. Það er mikið reykt í Berlín og ekki veit ég hvernig Berlínarbúar ætla að halda ró sinni þegar reykingabann á veitingahúsum gengur í gildi 1. apríl n.k. Tískubúðirnar eru glæsilegar, þar á meðal eru þó nokkuð margar "Stínu & Guðnýjar-búðir". Litlu sælkerabúðirnar sem eru í hverri götu, eru ekki bara augnayndi, heldur eru lyktarskynjunar - og bragðupplifanirnar þar engu líkar. Þar er hægt að kaupa úr glerborðunum og standa svo við stam-tisch og úða í sig.
Á Starbucks var hnippt kunnuglega í mig þar sem ég var að panta tvöfaldan karamellu-soja-latte. Var ekki bara þar komin Erna Bryndís skólasystir úr Verzló. Fagnaðarfundir og kaffi saman drukkið (Svona verður maður fyrir áhrifum af þýskri
setningaskipan).
Það er gaman að fara uppí sjónvarpsturninn sem er 400 metra hár og með útsýnishæð og hringsnúandi veitingastað. Turinn er staðsettur í Austur-Berlín. Lyftan uppí útsýnishæðina fer svo hratt að það leggjast saman á manni hljóðhimnurnar á leiðinni. Hún er 40 sekúndur á leiðinni þessa nokkur hundruð metra. Útsýnið var engu líkt og alltaf jafnundarlegt hvað allir hlutir öðlast nýja/aðra merkingu séðir ofanfrá. Veitingastaðurinn snérist tvöfalt hraðar en Perlan og það líkaði mér vel. (Mér finnst alltaf að það þurfi aðeins að gefa í - í Perlunni.) Maturinn var unaðslegur og alveg sérdeilis prýðilegt að borða svona á hringferð.
Við gerðumst túristar og stigum um borð í dæmigerðan túristastrætó á tveimur hæðum með engu þaki. Svo bara sveif maður um um borgina og fékk hraðfyrirlestra í heyranrtækjum um það sem fyrir augu bar. Flott fyrirkomulag og hentaði mér einkar vel. Aðalatriðin á fleygiferð. 
Berlín er toppurinn á tilverunni. Ég fer ekki ofan af því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Sunnudagur, 11.3.2007
Sunnudagskaka
![]() | Hesilhnetu súkkulaðikaka Þessi er franskættuð, hveitilaus og mjúk í miðju Fyrir 6-8 Innihald ½ dl Cadbury´s kakó ¾ dl Heitt vatn 150g Síríus Konsum 150g Mjúkt smjör 250g Púðursykur 150g Fínmalaðar hesilhnetu 4 Egg Leiðbeiningar Hrærið saman kakói og heitu vatni. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið því út í ásamt smjörinu, púðursykrinum og hnetuduftinu. Hrærið varlega þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið eggjarauðunum út í og hrærið. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið þeim út í með sleikju. Hitið ofninn í 170 gráður og setjið deigið í mjög vel smurt springform sem er 20cm í þvermál. Bakið í u.þ.b. 60-70 mínútur. Berið kökuna fram volga eða kalda, sigtið yfir hana kakódufti eða flórsykri og berið fram með t.d. ferskum ávöxtum. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 11.3.2007
Berlín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggvinir
-
Sólveig Hannesdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
Steinunn Helga Sigurðardóttir
-
Gunnar Páll Gunnarsson
-
Grétar Rögnvarsson
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Marta B Helgadóttir
-
www.zordis.com
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Svava frá Strandbergi
-
Brattur
-
Ragnar Freyr Ingvarsson
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Þorbjörg Ásgeirsdóttir