Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 30.6.2007
Hvað er fegurð/hvað er ljótleiki?
Þótt fagurfræði sé á íslenzku kennd við fegurð, er það hugtak þó frekar sjaldgæft í fræðilegri umræðu seinni tíma. Menn tala frekar um form eða listgildi.
Það fer eftir grunnviðhorfum í frumspeki og þekkingarfræði, hverjum augum menn líta fegurðina. Þeir sem telja að við höfum aðgang að einhverju sem nefnist raunveruleiki, líta gjarnan svo á, að fegurð sé einhverskonar eiginleiki hluta (náttúruhluta eða handaverka manna). Þeir sem líta svo á, að við höfum aðgang að vitundinni einni, segja að fegurð hljóti að vera einhverskonar reynsla, og athugun á fegurð sé því fólgin í því að afmarka, einkenna og lýsa þeirri reynslu.
Róttækir raunhyggjumenn (empíristar) líta svo á, að þar sem sérhver reynsla sé afstæð, einkaleg og persónubundin, hafi hver maður sinn smekk, og að um hann verði ekki deilt. Það er ekkert slíkt til sem heitir fegurð. Það sem einum finnst fagurt finnst öðrum ljótt, og við það verður að láta sitja.
Ef við aðhyllumst þá skoðun, að fegurð sé eiginleiki hluta, hljótum við að spyrja: Hvaða eiginleikar? Um tvennt er að ræða: Lit eða lögun. Við höfum heyrt talað um lostfagra liti. En hvernig vitum við, hvaða litir eru fagrir? Við getum litið svo á, að það fari ungri stúlku vel að vera rjóð í vöngum. En eru þá öll rjóð andlit fögur? Það yrði erfitt að skera úr því með mælingu.
Ef fegurð tilheyrir hlutum, verður hún að vera mælanleg. Og mælanlegir eru þeir eiginleikar sem verða í tölum taldir, lengd, breidd og hæð. Þá er hægt að skoða hvaða hlutföll þessara eiginleika hljóta að teljast fagrir. Sú skoðun var uppi í Grikklandi hinu forna, að fegurð væri fólgin í samræmi þessara hinna mælanlegu eiginleika (taxis). Enginn setur stórt stefni á lítinn bát, segir Aristóteles.
Séu stærðarhlutföllin í verkinu í góðu samræmi, er það fagurt. Þetta er kenningin um hlutföllin. Í þeirri kenningu fólst, að ákveðið hlutfall væri mælikvarði á fegurð, það er hlutfallið 5/8. Það heitir öðru nafni gullinsnið. Þetta sjónarmið er rótfast í menningu Vesturlanda. Það hefur margsinnis verið staðfest með tilraunum,
að menn velja frekar hlut, sem býr yfir gullinsniði, en annan sem gerir það ekki og finnst sá fyrrnefndi fallegri. En hinir fornu Grikkir ráku sig á það í árdaga vesturlenzkrar heimspeki, að það var ekki hægt að halda reglunni um hlutföllin til streitu. Súlur, sem stóðu í röð með nákvæmlega útmældu millibili, sýndust hallast út, þegar horft var á þær framan frá. Það varð því að halla þeim örlítið hverri að annarri, svo að þær sýndust vera nákvæmlega lóðréttar.
Síðan gerðu menn sér glögga grein fyrir því, að ýmsar fleiri blekkingar eru innbyggðar í sjónskynið og að það yrði að taka tillit til þeirra bæði í byggingar- og myndlist. Þegar Leonardó da Vinci og Leon Battista Alberti hugðust á endurreisnartímanum smíða kenningu um vísindalega endursköpun "veruleikans" í mynd, byggðist hún á því hvernig myndin af honum lítur út í skynjun eins auga. Allir vita að hlutir sýnast smækka í hlutfalli við fjarlægð og að samsíða línur sýnast skerast í fjarlægð. Allt þetta verður til þess að brennidepill athyglinnar færist frá hlutfallakenningunni og inn á hið huglæga svið. Menn hætta að tala um, að hið fagra sé í mælanlegum hlutföllum, heldur í upplifun og reynslu af "veruleikanum". En hvernig sér til átta í hugarheimum? Hvaða reynsla hefur þann eiginleika að
vera fögur (eða ljót)?
Davíð Hume áleit að hugtakið smekkur sé sá sjónarhóll, sem horfa beri frá. En hvernig getum við með tilstyrk smekksins greint hið fagra frá hinu ljóta? Einungis víðtæk og endurtekin reynsla getur brýnt smekkinn, svo að hann geti orðið að mælikvarða. Tveir menn smökkuðu á víni úr tunnu nokkurri. Annar kvaðst finna keim af leðri, en hinn af járni. Aðrir þeir sem slokuðu í sig víni úr ámunni hlógu að hinum tveim bjálfum. En þegar kom að því að súpa dreggjarnar kom í ljós að þar lá lykill með nautshúðarbleðil bundinn við.
Kant andmælti þessu: það er ekki hægt að leggja að jöfnu góðan smekk fyrir ýmsum lífsins gæðum og smekk fyrir hinu fagra. Hann viðurkenndi, að smekksdómar hljóti ætíð að vera huglægir (og þar með afstæðir), en hlytu þó að gera kröfu til að vera almennir og þar með mælikvarði á hið fagra. En hvernig má þetta tvennt fara saman? Ég get gert kröfu til að smekksdómur minn gildi einnig fyrir aðra, ef hann einskorðast við form. Slíkir smekksdómar hafa sameiginlegan grunn og gilda því almennt, þótt þeir séu lýsing einkalegrar reynslu.
Kant olli straumhvörfum. En hvernig á að vinna úr hugsun hans? Hvernig veit ég, nánar tiltekið, hvaða form er fagurt? Höfundur nokkur (Clive Bell) kvað það form fagurt, sem virkar á mig sem merkingarhlaðið. En þessi hugsun bítur í skottið á sér: Hið fagra form er það sem það er, af því ég finn merkingu í því. Áhrifin sem formið hefur á mig gerir það að verkum að það er það sem það er.
Fagurfræðileg umræða síðustu áratuga hefur hallazt að því, að fella niður allt tal um fegurð og ljótleika. Þess í stað hefur umræðan beinzt að því, að tiltaka, hvað verk (hlutur) þarf að hafa til að bera, svo að hægt sé að telja það listaverk (umræða um listgildi).
Til eru þeir, sem segja, að sérhvað það sem listheimurinn viðurkennir sem listaverk, sé listaverk. En hvað er listheimur og hvernig fer hann að því að taka ákvarðanir? Enn sem fyrr er umræðan um hið fagra frá tvennskonar sjónarhorni: Hinu hlutlæga, því að sérhver fagur hlutur hlýtur að hafa formgerð, og svo frá hinu huglæga: hið fagra hefur sérstök áhrif á okkur. Hvortveggja sjónarmiðin liggja að baki rökræðunni í riti Aristótelesar um skáldskaparlistina. Jafnvel í fornöld sveif hugur jafn hátt.
Sagði mér Herborg Eiríksdóttir, A.D.2002.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 26.6.2007
Andsælis
Sólin skín stanslaus
ég bara bíð eftir því
að það komi haust -
sagði við mig góð vinkona mín í dag. Kemur á daginn að hún kveðst þjást af sumarsólstöðuþunglyndi en viti ekki hvað skammdegisþunglyndi er. Þessi sama kona kveðst elda íslenska feita kjötsúpu þegar sól er sem hæst á lofti, en búa til exótísk sallöt í skammdeginu. Um verslunarmannahelgina þegar allir eru eins og landafjendur út um allar koppagrundir, sest hún á kaffihús í Reykjavík og fær sér kaffi og rjómatertu.
Er ekki mannfólkið margslungið ?

Bloggar | Breytt 28.6.2007 kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Mánudagur, 25.6.2007
Ofnbakaðar rauðspretturúllur með Camenbert og sperglum
- Ca.800 g rauðspretta (flökuð, roðflétt og beinhreinsuð) biðjð fisksalann um að gera þetta fyrir ykkur.
- 8 ferskir sperglar
- 8 sneiðar Camenbert (ca. 250 g)
- 1 msk sítrónusafi
- 1 hvítlauksrif (gróft saxað)
- 1/3 laukur (gróft saxaður)
- Estragon eða annað gott kryddi eins og timian, rósmarín eða dill
- 1 dl hvítvín (má sleppa, en þá þarf vatn í staðinn)
- Salt og pipar
Byrjið á því að sjóða spergilinn í söltu vatni í ca. 2 mín og setjið hann síðan í kalt vatn og þerrið loks á pappír. Leggið rauðsprettuna á bretti með roðhliðina upp og rétt sláið á flakið þannig að það fletjist aðeins út. Stráið salti og pipar yfir, setjið einn spergil ásamt einni sneið af camenbert ofaná flakið og rúllið upp í snyrtilega rúllu. Leggið rúllurnar í eldfast mót og hellið hvítvíninu eða vatninu yfir, ásamt hvítlauknum, lauknum, sítrónusafanum og kryddjurtunum. Saltið og piprið yfir rúllurnar og setjið álpappír yfir formið. Bakið inní 200°C heitum ofni í ca. 20 mínútur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 24.6.2007
Núna
Freydís í London, Gauti í Tokyo og ég á svölunum. En ekki bara á svölunum, heldur að flytja allt mitt hafurtask, bækur, möppur, gamlar ritgerðir og annað sem tilheyrir konu á besta aldri, í nýmálaða skrifstofu á besta stað í húsinu. Er núna með 33 bókahillur og veitir ekki af. Ekki ónýtt að sitja nú við tölvuna, með gufuna á fullu, flakka milli bloggvina - og skrifa á mína heittelskuðu tölvu. Öldungis óborganlegt. Nú getur sumarið byrjað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 20.6.2007
Akkúrat
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 16.6.2007
Enn um konur
Það var nú ekki berfættur sveittur strákur að sveifla lakkríksreimum við hliðina á mér á heimleiðinni. Nei, prúðasta kona af öllum prúðum slíkum. Var ein af tvennum hjónum sem auðsjáanlega vorum á leið úr sólinni. Brún og pen, slétt og snyrtileg, fólk sem á sumarbústað(i). Þetta var svona kona sem bakar brauð á meðan hún steikir kjötið og brúnar kartöflurnar með straujaða svuntu - og brýtur saman síðasta þvottinn í leiðinni. Fer aldrei úr vinnunni fyrr en á slaginu og hefur heklaða dúka undir kertastjökunum á borðstofuskenknum, sem er á bak við borðstofuborðið í borðstofunni. Kona sem hefur heklað klósetturúlluhengi á baðinu og kross yfir rúminu. Kona ríms og rytma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 16.6.2007
Konur
Einn friðsælan eftirmiðdag í sundlaugagarðinum:
Hi luv, is this chair free?
Yes, it is.
OK, luv, wonderful. I´m a 46 old, twice divorced, mother of three, had my appendix when I was 25, an office clerk, enjoying my life, visiting here for the first time, what about you, luv?
Ótrúleg upplifun að kynnast konu frá Newcastle sem bara sisona vildi fá bekkinn við hliðina á kyndugri konu með bók og kaffi. Hún tók hressilegan sundsprett eftir kynningarræðu sína, synti allt hvað af tók, þannig að krakkar á flotdýnum og í boltaleik í lauginni áttu útlimum fjör að launa, vippaði sér svo léttilega uppá bakkann, beint á bekkinn, dró öskubakka uppúr pússi sínu og fékk sér sígarettu í þremur smókum.
Konur, já, konur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 16.6.2007
Federico Garcia Lorca – Fare Well
If I die,
leave the balcony open.
The little boy is eating oranges.
(From my balcony I can see him.)
The reaper is harvesting the wheat.
(From my balcony I can hear him.)
If I die,
leave the balcony open!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 16.6.2007
My life as a tourist
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 16.6.2007
Nyde, nyde
Pálmatré sem blakta tignarlega, fuglar sem tísta, börn sem skríkja á mismunandi tungum, vatn sem gutlar, lykt af olíu sem er verið að steikja úr, sennilega í 3. skipti, íslenska bókin í hendi mér, kaffið á klakanum (ís-goffí for the Ice-lady heitir það .... ) - kókoshnetulykt af sólarvarnarsmyrslum á næsta bekk og lykt af djúpsteiktum mat frá nærliggjandi veitingahúsi, - það er stemmningin í sundlaugargarðinum, þar sem tugir Íslendinga, Þjóðverja, Breta, Svía og Dana líta á það sem hörkuvinnu að liggja og sóla sig samviskusamlega frá morgni til kvölds. Þeir alhörðustu koma út eldsnemma og taka frá bekki og sólhlífar til að ná bestu stæðunum. Og hætta ekki fyrr en skuggar pálmanna eru orðnir langir og fuglarnir farnir að tísta letilega. Það skilja fáir viðstaddra nokkuð í konu sem kemur annað slagið til að liggja undir skugga trjánna þegar vel gefst. Og er samt hvít sem nýfallin fönn á fögrum degi.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggvinir
-
Sólveig Hannesdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
Steinunn Helga Sigurðardóttir
-
Gunnar Páll Gunnarsson
-
Grétar Rögnvarsson
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Marta B Helgadóttir
-
www.zordis.com
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Svava frá Strandbergi
-
Brattur
-
Ragnar Freyr Ingvarsson
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Þorbjörg Ásgeirsdóttir