Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 29.11.2007
Raulað í roki
Í Skólavörðuholtið hátt
hugurinn skoppar núna.
Þar var áður kveðið kátt
og kalsað margt um trúna.
Þar var Herdís. Þar var smúkt.
Þar skein sól í heiði.
þar var ekki á hækjum húkt
né hitt gert undir leiði.
Ef þú ferð á undan mér
yfrí sælli veröld,
taktu þá á móti mér
með þín sálarkeröld.
En ef ég fer á undan þér
yfrí sælustraffið,
mun ég taka á móti þér.
Manga gefur kaffið.
Atli Heimir Sveinsson / Þórbergur Þórðarson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25.11.2007
Meðmæli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 25.11.2007
Sumir, stundum
Stundum þegar ég velti fyrir mér örlögum heimsins og tilgangi lífsins á jörðinni, segir þú ef til vill: átt´ekki heitt á könnunni?
Stundum þegar ég er hrædd um að ég hafi klúðrað einhverju, segir þú sisona: þér fyrirgefa nú allir allt...
Stundum þegar ég sé ekkert nema skýjabólstra út við sjóndeildarhringinn í eiginlegri sem óeiginlegri merkinu, segir þú hressilega: mikið assgoti er fallegt skýjafar núna erðett´ekki BARA frábært?
Svona eiga sumir alltaf rétt orð á réttum tíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 17.11.2007
Fegin
Það er rigning í miðbænum.
Það er síðdegi.
Það er nóvember.
Ég horfi á litaskiptingu á brúnni yfir tjörnina.
Blár, fjólublár, gulur, grænn.
Yfir þessa brú hef ég gengið frá Glaumbæ í partý í Vesturbæ, ung, full, full af vonum.
Yfir þessa brú hef ég gengið með börnin mín á 17. júní.
Yfir þessa brú hef ég gengið fullorðin kona, á leið til einskins.
Eða svoleiðis einhhvurn-veginn.
Það er súrrelastístískt að aka þarna framhjá og horfa á brúna nóvembersíðdegi, í rigningu.
Og biskupinn gengur framhjá með regnhlíf. Einbeittur.
Í útvarpinu segir Broddi Broddason frá fjölda látinna í Indlandi.
Var það fellibylur, var það jarðskjálfti, var það byssuæði, var það .... hvað var það?
Heima bíður ofnréttur.
Hvað ég er fegin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Fimmtudagur, 15.11.2007
Fimmtudagskvöldsös við kassann
Röðin var löng. Biðin ströng. Og fimmhundruð súkkulaðikaramellustangir í hillunum við kassana. Leið oss eigi í freistni og allt það. Einhver ropaði fyrir aftan. Upp gaus eitthvað í ætt við Þorláksmessuskötulykt. Krakki í röðinni við hliðina æpti án afláts og baðaði út fjórum útlimum, á köflum sýndist mér þeir fleiri. Konan sem keypti fimmtíu poka af kartöflum (ætlar sennilega að opna veitingahús á morgun) og var akkúrat fyrir framan mig, skrifaði ævisöguna á Visa-strimilinn. Hún þurfti m.a.s. að hugsa sig um milli nafna. Ætli hún hafi ekki heitið þremur nöfnum og tveimur eftirnöfnum með bandstriki á milli. Einsog þetta allt væri nú ekki nóg, gerðust þau ólíkindi, að ég missti allt úr pokanum mínum, í þann mund er ég vippaði honum hraustlega af stálborðinu. Pokinn þoldi ekki austfirsk átök og botninn gaf sig. Melónur, appelsínur, döðlupakkar og undanrenna dreifðust um forugt fordyrið. Austfirsk kona gat ekki still sig og sagði stundarhátt yfir mannfjöldann: "Andskotans helvíti." Þá sagði nærstödd frú með hneykslunarsvip: "Að hugsa sér, svona pen kona...." Ég hafði ekki einusinni húmor fyrir þessu og heimtaði nýjan poka, tuldraði um óvandaða pokagerð seinni ára og safnaði saman góssi mínu. Æddi svo örvita útí bílinn minn. Svona líka pen kona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 13.11.2007
Krakkarnir mínir í úglöndum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 6.11.2007
Deigla og döf

Margt hefur á daga drifið undanfarið og þeir verið pakkaðir af hinu og þessu. Ég er að tala um dag sem er til dæmis svona: Á fætur kl. 06.30. Leikfimi og sturta, morgunmatur og Moggi til 08.00 Vinnan kl. 08.15. Fundur, viðtal, símafundur, viðtal, fundur, kennsla til 15.00. Jarðarför og erfidrykkja til 16.45.
Kóræfing kl. 18.00. Kórtónleikar frá 20.30 til 22.30. Heim 23.00 Aðrir dagar eru ögn rólegri en vinnudagurinn alltaf langur. Í síðustu viku var margt skemmtilegt á döf, svo sem útgáfuteiti vegna útkomu Í felulitum eftir kollega Hildi. Þar var skemmtilegt, bæði gómsæt mungát og afburða félagsskapur. S & S komin frá Afríku og hafa frá mörgu að segja, m.a. Á vegum vinnunnar var haldið til Nesjavalla hvar fram fór 2ja daga vinnufundur fyrir alla stjórnendur SSR. Kvöldverður og teiti var um kvöldið, einstaklega vel heppnað og fjörugt.
Gáfumannafélagið XYZ hittist svo um daginn á Kjarvalsstöðum og drakk nokkra bolla af rótsterku kaffi til að freista þess að fá andann á flug. Ákveðið að reyna aðra tegund af drykkjum bráðlega í sama tilgangi. Annar kvennaselskapur sem ég tilheyri, mun hittast í næstu viku. Núna næstkomandi föstudag eru ekki minna en 3 hanastélsboð sem mér er ætlað að mæta í á tímabilinu frá 17.00 til 20.00. Valkvíðinn er að ná yfirhöndinni, hjálp...
Næsta laugardag (10. nóvember) er árshátíð SSR og við hnallþórurnar á starfsmannasviði (og hnallþórinn líka) munum sjá um forbjóð*1 fyrir aðalskrifstofuna. Annað á döf: Jólahlaðborð aðalskrifstofu, jólatónleikar Gospelsystra, jólatónleikar Frostrósa, Perlu-hittingur á Jómfrúnni og alls kyns boð, bruðirí og bomsadeisí.
Það er því ekki von að maður:
1. hugsi nokkra hugsun til enda
2. hætti að vera rauðvíns-drykkjumaður
3. nái að lesa bækurnar sjö á náttborðinu
4. bloggi
5. teikni í nýju teikniblokkina með flottu gormunum
6. taki fram ritgerðasmíðar
7. megrist fram að jólum
8. nái smákökusortunum fjórtán
*1= forbjóð = for=fyrir; bjóð=boð; => fyrirboð, þ.e. boð fyrir aðalboð ....... á ekkert skylt við viðbjóð
Bloggar | Breytt 7.11.2007 kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 3.11.2007
Hugsun úr Vedabókunum
Eins og fljótin, sem í hafið streyma og
glata heiti sínu og lögun,
þannig sameinast vitur maður anda lífsins,
sem er stærri en hið stærsta.
Launviska Vedabóka - Mundaka Upanishad - 3. hluti, 2. kafli , 8. erindi (Sören Sörenson endursagði úr frummálinu)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Bloggvinir
-
Sólveig Hannesdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
Steinunn Helga Sigurðardóttir
-
Gunnar Páll Gunnarsson
-
Grétar Rögnvarsson
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Marta B Helgadóttir
-
www.zordis.com
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Svava frá Strandbergi
-
Brattur
-
Ragnar Freyr Ingvarsson
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Þorbjörg Ásgeirsdóttir