Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 21.2.2008
Af konu
Rjúpnahæðin blasti við. Konan ætlaði bara að snúa við á snjóblautum, óræðum veginum, þegar óbyggðirnar blöstu við í upphæðum Kópavogs og ljóst var að hún hafði ekki fundið rétta götu. Þá sökk bíllinn utan vegkants, með svona skvamphljóði, blllllúppp, það minnti á rússnesku. Spól, spól, ekki sjéns að hnika bílnum. Konan hringdi í besta vin sinn sem kom með svo flottan kaðal að konan ætlaði ekki að týma að binda hann milli bílanna. Það var nú gert samt og upp fór bíllinn, rúúúúmmm, búúúmmm. Þetta var á Valentínusardaginn. Það var mjög rómantískt að lemjast um í rigningunni á Rjúpnahæðinni. Tilgangurinn með ævintýrinu var að fara í heimsókn til einnar alveg óhuggulega skemmtilegrar konu. Hún beið með matinn fyrir hrakfallabálkinn - og allar hinar konurnar þurftu að bíða líka og voru orðnar aggressívar af hungri þegar kona úr helju heimt birtist á svæðinu. Það var engin samúð, bara "á borðið með matinn!!!" Eða næstum svoleiðis.
Kona sat í pallborði í Háskóla Íslands meðal annarra geðsinnaðra, geðríkra, geðreynslumikilla kvenna og sagði ungum og upprennandi hjúkrunarfræðingum frá staðreyndum lífsins. Og geðsins. Öldungis bara alveg ágætt. Konan varð þó svolítið skrýtin innumsig þegar hún uppgötvaði að þessir nemendur hefðu tæpast verið fæddir þegar hún útskrifaðist úr þessum sama háskóla.
Það er Þorrablót framundan og konan á leið þangað. Hún er um það bil að renna frá húsinu á sjálfrennireið sinni, er hún man eftir rauðvínsflöskunni sem hún ætlaði að taka með og skreppur á spariskónum inn. Flaskan þrifin, út skal haldið aftur, orðin alltof sein, ó, guð. Á leiðinni út rennur konan snyrtilega á þröskuldinum og skellur aftur inná náttúruflísarnar með miklum dynk. Mokkakápan baðast í volgu blóði og ögn kaldara rauðvíni. Hvílíkt rauðvíns-blóðbað. Besti vinur konunnar var kvaddur til og plástraði hann allt fagurlega í bak og fyrir og litaði nokkur handklæði og moppur bleik. Á blótið var haldið með allt plástrað í bak og fyrir. Það eru enn marblettir hér og þar á konunni, - og Mokkakápan er skjöldótt. Enga brandara, takk.
Það er fundur í einum af mörgum félögum konunnar og hún horfir á myndband um meðferðaraðila einn, sem félagsmenn bera ómælda virðingu fyrir. Konan lifir sig svo inní myndina, að óskeikult tímaskyn hennar brenglaðist og allt í einu höfðu liðið þrjú korter. Brá henni svo mjög að hún skráði þetta vandlega hjá sér. Dagurinn sem hún gleymdi sér um sinn og hvarf á vit annarra heima.
Það er kaffi með vinkonu á kaffihúsi. Það er kaffi úr æpandi og spúandi maskínu og góð eplakaka. Það er eitthvað svo sjarmerandi að sitja við mátulega sjúskað borð og horfa útum glugga í bláleitt, blautt vetrarlegt síðdegi í borg við norðurskautsbaug. Expressóhvinurinn í loftinu, lágvær salsatónlist í hátalara, í svoleiðis argasta ósamræmi við stemminguna í reykvískum hversdagsleika. Lykt af blautum úlpum og skinkusamloku sem var í örbylgunni. Fegurðin býr stundum ekki bara í fjöllunum.
Það er brunch hjá vinkonu á sólríkum sunnudegi. Konan hittir þar fólk sem hún hefur aldrei séð. Gaman að virða það fyrir sér, hlusta á bak við orðin og fá smátt og smátt heildarmynd úr þúsund smáatriðum. Gaman að verða aldrei leiður á slíku. Þó að konan segi stundum að allt væri svo ágætt, ef væri ekki allt þetta fólk.
Það er heimsókn til vina sem hafa eignast nýtt barnabarn. Jemundur, hvað fólk getur lifað sig inní ömmu og afahlutverkið. En barnið er yndislegt og líkist konunni talsvert. Allavega hárið. Hún heitir Embla og er nýjasta vinkona hennar.
Það eru ný blöð á hárgreiðslustofunni. Hvílíkur andlegur niðurgangur og lágkúra. Samt les konan þetta af áfergju og skammast sín ekki einu sinni. Fær líka soðið kaffi frá í gær, en þar sem konan er alin upp á síldarplani og spítala er hún öllu vön. Og þykir meira að segja vont kaffi best. Hárgreiðslustofan er partur af lífi konunnar síðustu 20 ár. Hvað hún elskar þessa stofu, blöðin og soðna kaffið. Það er hins vegar einhver misskilningur sem birtist henni í speglinum, einhver allt önnur kona sem situr þarna í einskærum misgripum. Farin að líkjast mömmu hennar á efri árum, þó ekki jafn falleg og blíðleg.
Framundan hjá konunni, til dæmis: Konung- og drottningarleg móttaka einkadótturinnar sem er að koma í snöggfrí frá útlöndum. Saumaklúbbur í Skuggahverfinu. Fjölskylduafmælisveisla á laugardaginn. Þær eru lang-skemmtilegastar, enda skemmtilegasta fólk á byggðu bóli sem verður þar. Það er fólk sem er ekki þjáð af geðprýðisröskunum. Skíðaferð til Austurríkis. Londonferð um páskana. En núna: Himnaríki og hvelvíti eftir Jón Kalman. Bókina þá myndi konan kalla tilfinningalega og listræna upplifun. Og ekki orð um það meir.
Bloggar | Breytt 27.2.2008 kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Miðvikudagur, 20.2.2008
Svona er það nú
Blóm, krem, ilmur .....
Þægindi, hvítt, straujað lín ....
Og frammi bíður mikið af öllu,
fyrirheit í bolla, bók að kíkja í, skreyttar kökur, box að kíkja í, ljóð að yrkja.
Bíður það ekki annars örugglega?
Bloggar | Breytt 21.2.2008 kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 16.2.2008
Pæling úr dagbók 11 ára manneskju
Þar sem draumurinn hættir og veruleikinn byrjar...
Þar sem dásemdinni sleppir og hryllingurinn tekur við...
Þar sem æskan hverfur og hrörnunin tekur við....
Þar sem þorstinn læknast og fyllið tekur við....
Þar er nullpunkturinn.
Jafnvæispunkturinn.
Tómið.
Ekkert.
Eða hvað?
Ekkert er ekki til, tómið er ekki til og jafnvægispunkturinn einungis fræðileg stærð.
Hvað er þá og hvað er ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 11.2.2008
Skrafað við vin minn
-Sko, þegar ég var enn útí geimnum og ekki kominn í heiminn ....
-Já?
-Þá veldi ég mömmu mína til að vera amma mín
-En mamma og amma geta ekki verið sama konan..?
-Jú, mamma mín er líka amma ... hans Agli
-Egils?
-Ég var að seijaða
-Skil þig. En hún er bara mamma þín, ekki amma þín, en amma Egils.
- Þú ert bara öfundsjúk. Og svoldið gömul
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fimmtudagur, 7.2.2008
Svona er nú það
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Þriðjudagur, 29.1.2008
So ....
Mér er annt um blúndur. Ég dýrka þvott á snúrum. Fátt er mér hugleiknara en bakki með kaffi og kökum. Bækur eru bestar. Rigmor Hanson kjólarnir standa alltaf fyrir sínu. Hver var að tala um fjöldamorð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Sunnudagur, 20.1.2008
Ó borg, mín borg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Mánudagur, 14.1.2008
Árgangur # 1
Í HA með Dr. Sigríði Halldórsdóttir
Einhver hefur kannski hugsað: guð, hvað hún hefur nú hvítar tennur hún GAA, þó hún sé annars orðin gömul og grá, greyið. Samt held ég ekki.
Einhver hefur kannski hugsað: mikið ansi er hún nú útitekin hún GAA, þó .... og svo framvegis. Samt held ég ekki.
Það munaði ansi miklu að hafa pantað tíma í hand - og fót, hvað þá gert situps .... eða þannig.
Ég hlustaði aldrei á iPodinn.... Til þess var alltof mikið úrval af skemmtilegum viðmælendum.
Aðalatriðið er: Þetta var einstaklega skemmtilegt ferðalag til Akureyrar í sérdeilis skemmtilegum og vandræðalausum hópi. Akureyri tók á móti okkur í átta stiga frosti og snjóhvítri vetrarstillu. Við týmdum varla að tala, eins og við annars höfum nú gaman af því, - til að trufla ekki kyrrðina. Vaðlaheiðin vinkaði og Kaldbakur kinkaði kolli. Pollurinn var pollrólegur. Magga P tók á móti okkur. Við heimsóttum FSA, Verkmenntaskólann og Háskólann, Gistiheimilið AkurInn, Strikið veitingahús (top floooooor), Bláu könnuna og Pennann. Hefðum farið á Listasafn Akureyrar ef það hefði verið opið. Hlógum mikið, rifjuðum upp forna atburði, bárum saman fagleg hugðarefni, borðuðum óendanlega góðan mat, drukkum rauðvín frá Chile. Og skoðuðum mynda-albúm síðan í árdaga, er við vorum ungar og efnilegar, að byrja í háskóla, hefja mannkynsfjölgun og stofna hátimbruð félög af metnaði og mannkærleika, skemmta okkur með vinum okkar og njóta lífsins. Við höfum þetta (næstum) allt á valdi okkar ennþá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 11.1.2008
Kannski bara?
Þegar maður er farinn eftir langt hlé að:
- nota tannhvíttiefni
- bera á sig brúnkukrem
- panta tíma í hand og fótsnyrtingu
- gera fimmtíu situps alla mogna
- hlaða iPodinn með Chopin og Blonde Redhead
þá hlýtur maður að vera að öðlast lífsgleði.
Þá er ekki öll von úti í huga manns.Eða hvað?
Kannski er maður bara að fara til Akureyrar með útskriftarárgangi sínum úr H.Í.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Bloggvinir
-
Sólveig Hannesdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
Steinunn Helga Sigurðardóttir
-
Gunnar Páll Gunnarsson
-
Grétar Rögnvarsson
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Marta B Helgadóttir
-
www.zordis.com
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Svava frá Strandbergi
-
Brattur
-
Ragnar Freyr Ingvarsson
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Þorbjörg Ásgeirsdóttir