Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 8.7.2008
Hehehehe!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 5.7.2008
Kampavín, kaffi og kettir
Þrátt fyrir að veðurspáin gengi ekki alveg eftir hér í Reykjavíkinni í dag, var alveg hægt að sitja útundir vegg í reykvísku sveita-umhverfi og njóta kampavíns, kaffis, eggjaköku, beikons, kartöfluréttar, pönnukaka með sírópi og ávöxtum - og frábærs félagsskapar. Kisurnar settu svip á daginn og Siva var t.d. sérdeilis ástfangin af töskunni hennar Möggu. Unaðslegur laugardagur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 26.6.2008
Dúkkulísur
Allir sem fæddir eru fyrir sjónvarp og tölvuleiki, muna eftir hlutverkjaleikum í æsku sinni, sem fólust í því að leika sér með pappírsteikningar, svokallaðar dúkkulísur eða baby-dolls.
Þetta var afar skapandi leikur og stórmerkilegt samfélag sem þessar persónur lifðu og hrærðust í.
Þegar leiktjöldin sem fylgdu í pakkanum (frá Reykjavík eða Danmörku; jafnvel Svíþjóð) þrutu, þá voru teiknuð ný úr pappaspjöldum, skókössum og öðru tiltæku. Þarna urðu til sannkallaðir ævintýraheimar og umtalsverð design-afrek.
Stelpur léku sér aðallega í þessum leik, en strákum þótti það heldur til minnkunar. Þó áttu þeir til að samþykkja leik, ef maður sór þess dýran eið, með hönd á Biblíunni eða Jónasi Hallgrímssyni að segja engum frá. Þá áttu þeir það til að gleyma sér gersamlega í leiknum. Þeir "voru" alltaf strákurinn eða maðurinn, en stelpurnar "voru" stelpan eða konan. Stelpurnar urðu alltaf að vinna það vandaverk að klippa út persónur og leikmuni, því strákarnir voru svo klaufskir við það. Kannski varð önnur skálmin þá svoleiðis að sá í fótinn - og það þurfti nú minna til að slægi í brýnu með leikstjórum og af hlytist nokkurra klukkustnda stórfýla.
Óneitanlega eru þau hér á myndunum að ofan afskaplega sakleysisleg og "góðubarnaleg." Það var talsverð framför þegar á markaðinn komu dúkkulísur sem sýndu ýmis geðbrigði og voru sumir ekki seinir á sér að taka þær í brúk. Þarna skapaðist ágætis grundvöllur til að æfa sig fyrir kenjar mannfólksins og lífsins síðar meir.
Ekki voru það allt krakkar sem við leikstýrðum, heldur var líka unnt að fá dæmigerða millistéttarfjölskyldu, mömmu, pabba og svona tvö til þrjú börn, algera konformista.
Það gat orsakað talsvert öldurót í barnssálum að eiga við fjölskyldulíf og barnauppeldi, með öllum þeim hugsanlegu átökum, skoðanaskiptum, reglum og hindrunum sem því getur fylgt. Stundum urðu deilur um uppeldisaðferðir eða hvort ætti að vera laukur inní kjötbollunum eða bara með þeim. Svo gat verið ansi viðkvæmt, hvernig litir pössuðu saman á fötum. Lyktaði þeim iðulega með að annar leikstjórinn rauk á dyr og skellti svoleiðis hurðum að myndir hristust á veggjum. Það voru kallaðir sex Richtara skellir. Flest fór nú samt fram í margra klukkutíma sátt og samlyndi. Til urðu langar sápuóperur sem stóðu dögum, jafnvel vikum saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Miðvikudagur, 25.6.2008
Sumir dagar eru betri en aðrir dagar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 24.6.2008
Tízkan um 1960
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 23.6.2008
Reykfíknin er innan við eyrun
Stórreykingamenn sem fengið hafa blóðtappa á ákveðnu svæði í heila, virðast eiga mun auðveldara með að hætta en aðrir. Þetta sýna nú niðurstöður nýrrar rannsóknar læknisins Nasirs H. Naqvi, við Iowa og Suður-Kaliforníuháskóla í Bandaríkjunum. Hugmyndin kviknaði vegna þess að 28 ára gamall sjúklingur, sem hafði verið stórreykingamaður frá 14 ára aldri allt fram til þess dags þegar hann fékk blóðtappa í heila, hafði ekki minnstu löngun til að reykja þegar hann komst til meðvitundar. Það var síður en svo meðvituð ákvörðun hans að hætta , en nú fann hann beinlínis til ógeðs þegar hann fann reykingalykt. Yfirleitt getur löngun í nikótín hins vegar komið upp í mörg ár eftir að fólk hættir að reykja.
Þessi uppgötvun varð til þess að Naqvi og samstarfsfólk hans hóf reglubundna rannsókn á sjúkraskrám reykingafólks sem hafði orðið fyrir heilaskaða. Af 32 slíkum sjúklingum reyndust 16 hafa hætt að reykja strax eftir heilasköddunina. Heilaskannanir bentu á ákveðin heilasvæði sem nefnast insula eða eyja og að sköddun þessara heilastöðva virtist gera fólki 100-falt léttara að reykja. Þetta opnar möguleika á nýjum aðferðum til að hætta að reykja, t.d. með því að örva þessar heilastöðvar með rafmagni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 22.6.2008
Strandgatan
Það er þoka.
Hómatindurinn er sveipaður skýjadulum, já eiginlega skýjadruslum. Ævintýralegt. Það er eins og bómull vefji sig um kletta, gljúfur, mela og móa. Og fjarðarmynni. Ég sé götuna heima, sem liðast um þorpið, Strandgötuna. Einhverjir segja að þetta sé dautt þorp, að þar líti út fyrir að búi eintómir dauðir menn. Þvílík vitleysa, þvílík andleg fátækt að halda það. Þeir hinir sömu hafa t.d. aldrei komið í Markúsarbúð. Þar er Sigurþór fyrir innan borð, í blá-köflótta vestinu sínu, kankvís að vanda. Þar eru allar innréttingar úr viði og manni finnst eiginlega að Sigurþór sé úr viði líka.. Hann er samt ótrúlega human. Dóttir hans er Agnes sem er einskonar vinkona mín. Ég kem í búðina og segi hægversk: Er til lakkrís? Ég var send af Snorra á Mel og Bjarna Lullu. Sigurþór segir: Var allur larkkrísinn búinn hjá honum pabba þínum? Og ég veit um leið að hann veit, að ég lét mana mig, ég var höfð að fífli. Því allur lakkrís heimsins er til hjá honum pabba mínum. Að ég lét plata mig. Svo ég segi nú sisona við Sigurþór: Æ, ég segi nú bara svona, til að fitja uppá samræðum.... Og Sigurþóri fannst ég svo skemmtilega skrýtin. En ekki Snorra og Bjarna, þeim fannst ég ekki skemmtileg að koma lakkríslaus úr ferðinni.
Markúsarbúðin er í sama húsi og þau búa, Inga og Ingólfur. Þar kem ég oft, því þar á Golli vinur minn heima. Við erum ógnarlegir vinir, en engir mega vita það. Ég veit ekki af hverju það er eiginlega svona mikið leyndarmál. Ég kem upp á efri hæðina í Hallgrímshúsi til Golla og það brakar svo notalega í gólfinu. Eldhúsið er stórt og umsvifamikið. Þar er gott að fá nýbakaðar vöfflur hjá Ingu. Hún er strýðin og skemmtileg. Hún skiptir um gardínur eftir árstíðum og segir mér hvernig hún saumar bekkina á gardínurnar. Ég skil ekki bofs, en nikka skilningrík. Hún er skyggn og segir: elskan min, þú ert svo listhneigð, svo gáfuð, þetta er alveg fyrir ofan þig. Ég hugsaði í mörg ár um, hvað gæti verið fyrir ofan mig, en fékk svonsem ekk botn í það, fyrr en kannski nú. Eða hvussu hvums? Svo var einhver lykt hja Ingu og þeim í Hallgrímshúsi. Svona höfug lykt, af flaueli, plussi, ilmvatni, vöfflubakstri, vindlum, ég veit ekki hvað. Einu sinni sagi Inga við mig: Elsku, þú varst svo ung þegar þú varst að þykjast reykja í skúrnum, þú verður án efa mikilmenni... Ég ætla ekki að reyna að útskýra hversu stórfengleg ráðgáta þessi orð voru, né heldur samhengið í hugsunum Ingu. Hinsvegar man ég okkur Snorra á Mel reykja Malbourogh sem ég stal frá pabba í þurrkhallinum hennnar Ingu, -og einmitt þegar mamma hafði fengið snúrupláss hjá Ingu í hallinum og hún (mamma) sagði: oh, hafa nú einhverjir skrattakollar verið að reykja hér. Þegar ég sagði Snorra frá þessu, sagði hann einfaldlega: Svona er lífið, Guðnyanna mín, skrattakollar, - hm, hvað hélstu...? Ég reyndi að hafa ekki áhyggjur, en svona er lífið. Ég minnti Snorra á þetta fjörutíu árum seinna og hann þóttist ekki muna hversu spakur hann hafði verið og næmur á tilveruna og samhengi hennar.
Fjörutíu og átta árum síðar hitti ég son Snorra sem er þá giftur dóttur heimasætunnar í Hallgrímshúsi, Friðnýju. Ó, hvað manni bregður við að tíminn liði og mennirnir breytist. Hvernig gat þetta orðið svona?
Við hliðina á Ingólfshúsi var lítið hús, samfast. Þar bjó Strúna sem varð mér mikil andleg uppspretta. Ég vissi að þetta var stórgáfuð og fróð kona. Ég lét hinsvegar tilleiðast með öðrum og stríddi henni með ýmsum brögðum eins og því að nudda eingrunarplasti á gluggana hennar. Hvað ég get fyrirvarið mig núna. Hún tók þessu ekki af skapstillingu og elti okkur um allar koppagrundir með sóp í hendi og sór þess dýran eið og koma okkur öllum til vítis. Ég átti í erfiðum samræðum við guð eftir þessa atburði, en krakkarnir, vinir mínir, vissu ekkert af því. Og Snorri, Benni og Bjarni hefðu ekki skilið mig. Né myndu gera enn í dag, þó ég vissi að þeir hefðu átt í álíka samræðum og ég.
Okkar megin í götunni, Pöntunarmegin, var auðvitað húsið okkar, Sundforshús, síðar kallað Framnes, og svo Pöntun, búðin eina sanna í öllu þorpinu. Seinna átti sú bygging eftir að verða bókabúð og byggingarvöruverslun, hvar ung stúlka úr Verslunarskólanum afgreiddi á sólríkum sumrum. En nú var þetta aðalbúðin. Ekki leiðinlegt að spranga þar um og kaupa kjötfars af Sissa, mjók af Ragnari - og Omo og Sparr. Ég held að Ása og Gússa hafi verið á kössunum, samt man ég það ekki alveg. Seinna átti ég eftir að afgreiða á kassanum í bókabúðinni og bíða eftir bréfum frá Fidda. Það er önnur saga.
Ég man lykt af soðinni ýsu. Og kvöldfréttir. Og sólin að síga í fjarðarmynni.
Ég man Hlöðver í Bakaríinu og hvað ég var hissa að sjá Herdísi ekki á peysufötum. Samt var dóttir þeirra Grímhildur vinkona mín. Húsið þeirra var svoleiðis, að svoleiðis ætlaði ég að hafa mitt.
Ég man pabba að spúla búðina utanvert á laugardegi og Svanagöngur á heiði í útvarpinu. Við krakkarnir í yfir á húsinu heima og Fúsa Viggóss að segja mér að það skipti máli að hinir töpuðu. Seinna áttum við eftir að labba saman á fallegu sumarkvöldi á planinu neðan við Lúthershús. En ekki söguna meir.
Ég man mömmu á tröppunum við Sundförshús, meðan þar voru enn glæislegar tröppur, að segja velkomin elskurnar mínar þegar bróðir minn og fjölskylda hans var að koma í bæinn. Þá var lífið í hæstum hæðum en fór í neðsta þegar þau fóru aftur. Enginn skildi söknuð lítillar stelpu nema mamma.
Ég man hvað lífið var skemmtilegt, fullt af lífi, skemmtilegu fólki, góðri lykt og gæðum. En það var líka bara Eskifjörður. Hvað bar mann þaðan? Ég sem ætlaði bara að giftast einhverjum strák heima og vera þar alltaf - þegar ég var átta ára og vissi ekki að heimurinn yrði eitthvað annað en Eskifjörður. Hefur hann orðið eitthvað annað?
Ég er samt sæl, ég er Eskfirðingur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 20.6.2008
Eskifjarðarþáttur
Í dag var kvödd elskuleg vinkona fjölskyldu minnar, Ingibjörg Jónsdóttir frá Eskifirði, daglega kölluð Inga Ingólfs, eftir manni hennar Ingólfi Hallgrímssyni. Inga varð næstum 99 ára gömul og hefur maður aldrei litið dagsins ljós öðruvísi en að hún væri þar, - einhvern veginn í tilverunni. Hér fylgja myndir frá Eskifirði og íbúum Strandgötu 45 og 46, Sundforshúsi og Hallgrímshúsi. Seinna skrifa ég betur um Ingu mína. Og kannski, - þegar vel liggur á mér, - um skrautlega og skemmtilega íbúa Strandgötunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggvinir
-
Sólveig Hannesdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
Steinunn Helga Sigurðardóttir
-
Gunnar Páll Gunnarsson
-
Grétar Rögnvarsson
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Marta B Helgadóttir
-
www.zordis.com
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Svava frá Strandbergi
-
Brattur
-
Ragnar Freyr Ingvarsson
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Þorbjörg Ásgeirsdóttir