Þriðjudagur, 3.2.2009
Baksýn
Þegar ég var ung og óreynd og ætlaði að verða rithöfundur, skrifaði ég mýgrút af smásögum. Þær hafa flestar farið á haugana en sumar hafa lifað af flutninga milli mismunandi gatna á höfuðborgarsvæðinu og gott ef ekki milli heimsálfa líka. Það er mjög fyndið að bera saman mismunandi byrjun sagnanna eftir mismunandi aldurskeiðum rithöfundarins og lífsreynslu hans á hverju skeiði. Dæmi:
7 ára: Vonda konan átti heima í húsi með skökku þagi. Hún hafði voða stóra bólu á kinnunni.
Þarna er stafsetningin ekki komin alveg á hreint, en komið beint að efninu, vondri konu sem að sjálfsögðu var með bólu eins og vondri konu sæmir. Maður sér strax fyrir sér einskonar galdranorn. Sagan fjallar um vonda konu, sem er ekkert nema vond og svo auðvitað góðar stelpur sem voru bara að stríða henna að gamni sínu og ætluðu ekki að gera neitt illt. Það er ekkert point í sögunni, ekkert bottomline, en eigi að síður ber hún ákveðnu sakleysi og svart-hvítri heimsmynd skýrt vitni.
9 ára: Gamli maðurinn vildi slá grasið eins og alltaf hafði verið gert í sveitinni, með orfi og ljái. Ungi maðurinn vildi hins vegar hafa nýtískulegt í búskapnum og slá með sláttuvél og binda svo heyið með heybindivél. Útaf þessu spruttu miklar og illvígar deilur.
Þarna sést að kaupstaðarstúlkan hafði kynnzt sveitinni, þó ekki væri hún í venjulegri vist, heldur á læknisbústaðnum á Breiðumýri. Eitthvað er stafsetningin ekki alveg orðin heilleg, s.s. beyging á orðinu ljár. Miklar og illvígar deilur - orðalagið sýnir að ég hafði byrjað að lesa Íslendingasögurnar, enda hóf ég þá vegferð um þetta leyti. Margar sögur urðu til þetta sumar, þar eð margt nýstárlegt bar fyrir augu mín og eyru í ferðalögum sem ég fór um allar sveitir með bróður mínum, lækninum. Ég passaði samt alltaf vel upp á að breyta nöfnum og staðháttum, merkilegt nokk. Kannski hafa læknishjónin eitthvað skipt sér af þessu, ég man það ekki. Þessi saga fjallar um deilur sem spruttu á einum bænum um nýjungar í búskapartækni, en ekki nákvæmlega heyskap.
11 ára: Þykkur reykjarmökkur fyllti salinn og jazz-kenndir tónar bárust frá flyglinum. Undarlegt hvað flygill gat verið vel boltaður í gólf skemmtiferðarskips. Hávaðinn í fólkinu gaf til kynna að það hafði þurft að drekka venju fremur mikið víngutl með matnum þetta kvöld. Kona stóð við flygilinn og vingsaði hanskaklæddri hendi útí loftið og söng " .. Bluueeeeeee moooooooooon.." Honum Hjalta hefði ekki þótt þetta fagur söngur.
Þarna hefur daman upplifað að fara með Gullfossi, skemmtileferðarskipi #1 Íslendinga, til Bretlands og Kaupmannahafnar, fram og tilbaka. Sagan fjallar um slæmar afleiðingar víndrykkju og má sjá strax í upphafi viðhorfið til víngutlsins og að tónarnir hafi verð jazz-kenndir. Á þessu tímabili var ég kapallán í stúkunni á Eskifirði og ætlaði aldrei að verða annað en gútemplar.Þarna er stafsetningin orðin nokkuð stöðug í sessi og lýsingarnar lifandi.
14 ára: Mislit ljósin lýstu upp bryggjuna. Bryggjunni var einhvern þannig fyrir komið að hún ruggaði til og frá á vatninu, þó ekki væri nú stórsjórinn. Nokkrir hljómsveitarmenn stóðu til hliðar, með hatta á hausunum, spilandi á banjó, gítara og fiðlur. Ekki alveg músíkk fyrir okkur Evu, en alveg danstaktur í henni samt. Ég sá strax að strákurinn með brúnu augun starði hugfanginn á Evu. Hann var afskaplega myndarlegur.
Þarna er stafsetningin sennilega alveg orðin hundrað present og ákveðið sjálfsöryggi í stílnum, þó ekki sé nú hátt á honum risið. Sagan fjallar um ævintrýri tveggja stúlkna sem fara á miðnætursumarsball í Svíþjóð, en slíkt hafði heimasætan þá reynt, einmitt í heimsókn hjá bróður sínum sem var við nám í Svíþjóð.
Inn á milli sagnanna eru stundum hugsanabrot, ljóð og önnur vitleysa sem stelpur skrifa gjarnan hjá sér svona "along the way".
Á einum stað stendur: Alveg er mér sama þó hann Helgi hafi valið Bertu fram yfir mig í dag hjá Rigmor. Ég grét dáldið þegar ég kom heim, en svo sagði ég Baldri frá þessu og hann hló svo mikið, að ég fór bara í gott skap aftur. Baldur sagði að ég væri sú alskemmtilegasta og besta stelpa sem hann þekkti. Mér finnst að við stelpurnar eigum að fá að velja jafnoft sráka eins og strákar stelpur í dansinum.
Á öðrum: Ég get bara ekki notað þessar bomsur sem hún X gaf mér. Þær eru meira halló en Hólmatindur. Mamma segir að ég geti ekki verið þekkt fyrir annað en að ganga í þeim. Þarf maður að ljúga sig út úr svona? Úff, hvað lífið er flókið.
Og enn öðrum: S. ég elska þig að eilífu. Þó þú sért með merginn lekandi útúr eyrunum, sem mér finnst nú frekar ógeðslegt. Það er líka það eina, að öðru leyti elska ég þig..
Er ekki lífið skrýtð, skondið og aldeilis skemmtilegt, líka þegar horft er í baksýnisspegilinn?
Bloggvinir
- Sólveig Hannesdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- Steinunn Helga Sigurðardóttir
- Gunnar Páll Gunnarsson
- Grétar Rögnvarsson
- Steingerður Steinarsdóttir
- Marta B Helgadóttir
- www.zordis.com
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Svava frá Strandbergi
- Brattur
- Ragnar Freyr Ingvarsson
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Þorbjörg Ásgeirsdóttir
Athugasemdir
Það er sérdeilis skemmtilegt að þú skulir hafa haldið uppá textana þína. Bara yndislegt að sjá unga pennann í konunni.
Knús í daginn....
www.zordis.com, 3.2.2009 kl. 07:11
Alveg sérdeilis skemmtilegt að lesa þetta. "Meira halló en Hólmatindur" Hallærislegra verður það nú varla.......... ;)
Hrönn Sigurðardóttir, 3.2.2009 kl. 13:21
Vildi bara skilja eftir fótspor.
Ásdís Sigurðardóttir, 3.2.2009 kl. 22:13
Ég var líka með svona rithöfund í skeifugörninni þegar ég var lítill. Ég mæli eindregið með að þú haldir þessu við núna meðan þú ert ennþá ung og hress og takir upp þráðinn aftur í ellinni þegar tíminn leyfir slíkan munað:) Það ætla ég a.m.k. að gera en til þess verður maður að halda sér í lágmarksformi annars er næsta ómögulegt að komast aftur í gang á áttræðisaldri.
Áfram Guðný!
Ásgeir Rúnar Helgason, 4.2.2009 kl. 08:23
Tek undir með Ásgeiri.
Sólveig Hannesdóttir, 4.2.2009 kl. 17:34
Skemmtilegt..maður bíður spenntur eftir fullorðins skálsögunum og frásögnunum. í heilli bók bara takk!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 5.2.2009 kl. 15:20
Ó Guðný Anna. Þetta er bara bjartur og tær stjörnuhiminn fyrir mig. Það þjóta í gegnum kollinn ótal minningabrot. Takk elskan mín. Þú hefur alltaf verið mikil listakona, hvort sem þú málar, teiknar, skrifar eða hvað annað. Ég á ótal minningar í kollinum varðandi þetta. Sterkust er minningin af myndinni þinni, jarðaför.
Vona að þér líði betur og nú klingir síminn hjá þér eitthvert sinn um helgina þar sem ég verð á öðrum endanum og tilkynni komu mína.
Kærleikskveðja, batakveðja og faðmlag.
Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 12:13
Takk fyrir uppörvandi og skemmtileg komment, elsku fólk.
Já, það er um að gera, EF maður ætlar að koma einhverju frá sér af þokkalegu viti og í svona nokkurn veginn rökréttu samhengi, að missa ekki dampinn alveg. Ég hef nú raunar lagt allt slíkt á hilluna, er með skúffur og skápa full af dóti, en geri ekki ráð fyrir að koma þessu í formið sem skilgreint er hér að framn.
En enginn sýpur ausuna þó í kálið sé komið og eigi veit maður hvort ellegar hvar næsta jólaball verður haldið..
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.2.2009 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.