Föstudagur, 28.11.2008
Það er engin mynd með þessari færslu
Mjök er mér tregt um tungu að hræra. Hvað þá penna.
Ég nenni ekki kjaftavaðli.
Að segja sem mest í sem minnstu er málið ( ..ég get það þó varla sjálf, en það er önnur og verri saga....)
Ég man bara hvað það var gott að sofna við duggudugg á Eskifirði. Hvað var góð lykt af nýþvegnum, rulluðuðum (með tré-rullu sem gerir sérstaka áferð og lykt) og straujuðum sængurfötunum sem móðir mín hafði annast. Hvað það var notalegt að heyra hreppsnefndarmennina hlæja hátt á neðri hæðinni og mömmu segja á efri hæðinni; æ, fara þeir ekki að hætta. Gömul minning af Alþýðuflokksheimili austur á fjörðum.
Ég óttast að arfleifð feðra minn og mæðra sé í húfi. Í húfi fyrir framtíðina.
Hvað er framtíðin? Egg okkar og sæði. Áframhald erfðaefnisins í nýju samhengi. Nú er vá fyrir dyrum. Meina og segi vá. Og þessi skoðun kemur frá konu sem er þekkt fyrir óþolandi jákvæðniraus og Pollýönnusyndrome par excellence.
Sjálfsmynd þjóðar minnar er breytt. Ógnarbreytt.
Ég hugsaði margt, ófróð konan um hagfræði og vonsku heimsins (alias eða ekki alias), að þegar Albreit, Albufeira eða hvað hann nú heitir, sagði hér eittsinni, að maður þyrfti bara að telja byggingarkranana til að sjá fyrir um efnahagsþróun samfélags. Hann taldi hér í Reykjavík fimmtánhundruð krana og sagði: ég gef ykkur eitt ár. Síðan er eitt ár. Og ég kalla ráðamenn þessarar þjóðar minnar til ábyrgðar. Hvað er að kalla til ábyrgðar? Það er að segja: Sorrý, ég sá óveðurský, en ég kaus að sóla mig enn um sinn. Ég stíg til hliðar og lýt því sem meiri hluti þjóðar og mestu sérfræðingar þjóðar segja, en skal gefa ráð af reynslu minni og mistökum. Þannig axla ég ábyrgð og geri það besta miðað við aðstæður.
Ég kalla Þorvald Gylfason, ég kalla Gylfa Zoega, ég kalla Jón Baldvin Hannibalsson, ég kalla Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, ég kalla Árna Pál Árnason, ég kalla Ingibjörgu Sigurðardóttur, ég kalla Katrínu Jakobsdóttur, ég kalla marga, marga fleiri, komiði, leggið á ráðin og fáið jafningja ykkar til leiks.
Út með hina.
Um útrásrvíkinga, bankamenn og svokallaða athafnamenn án samfélagsvitundar nenni ég ekki að fjölyrða. Þeir eru farið fé (sem betur fer), betur að fyrr hefði verið. Komi þeir hins vegar aldrei aftur og vei þeirra hugmyndafræði, ef hugmyndafræði skyldi kalla.
Hlustum svo á Pavanne eftir Gabriel Fauré og gerum minni landsins að hætti Ásatrúarmanna.
Ekkert minna.
Og engan meiri kjaftavaðal.
Bloggvinir
- Sólveig Hannesdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- Steinunn Helga Sigurðardóttir
- Gunnar Páll Gunnarsson
- Grétar Rögnvarsson
- Steingerður Steinarsdóttir
- Marta B Helgadóttir
- www.zordis.com
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Svava frá Strandbergi
- Brattur
- Ragnar Freyr Ingvarsson
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Þorbjörg Ásgeirsdóttir
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þetta elsku vinkona. Vel mælt eins og alltaf.
Já. Víst er vá yfir og sólin lágt á lofti þessa daga. Og þó hún verði þar, þá þarf að halda frá henni þessum biksvörtu skýjum af kunnáttu og visku svo ekki fari verr.
Stundum þyrmir yfir mann myrkrið og manni er óskiljanlegt hvernig svona miklum fjárhæðum getur verið rænt með svikum og prettum án þess að nokkur sé dreginn til ábyrgðar. Enginn þarf að standa skil á neinu og fólk spyr í forundran og reiði: hvar eru peningarnir mínir sem ég trúði þessum mönnum fyrir? Hvernig getum við ætlast til löghlýðni og ábyrgra gerða allra hinna þegnanna sem eru jafnvel leiddir í fylgd tveggja lögregluþjóna gegnum stórmarkað ef þeim hefur orðið á að stinga einum sláturkeppi í veskið sitt. Nei. Það þarf meira til, ef takast á að halda lýðræðinu gangandi, friði og samtakamætti til leita að lausnum og uppbyggingu. Það gengur ekki að fótum troða réttlætiskennd þegnanna og tala svo um samtakamátt og þolinmæði á sama augnabliki.
Ástarkveðjur allan daginn
Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 10:24
Vel ritað eins og þín er von og vísa. Ekki deili ég þó fullkomlega mannavali, tel þó alla góða nema Jón Baldvin, finnst hann ekki nógu marktækur. En þetta ástand er skammarlegt, satt er það. Kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 29.11.2008 kl. 10:32
En samt reynir maður sannarlega af fremsta mætti að viðhalda bjartsýninni. Hugsanir manns eru það sem aldrei er hægt að ræna og eins gott að notfæra sér það vald manni sjálfum til hagsbóta. Það er bara svo miklu, miklu betra að vera jákvæður en neikvæður þegar til lengri tíma er litið.
Svo gleymi ég náttúrlega að minnast á fortíðarnostalgíuna sem heltekur mann stundum þessa daga og óendanlegan söknuð. Já ,,duggu,dugg". Lágstemmt vélarhljóð í trillu á firðinum er t.d. eitthvað sem maður ekki gleymir. Ég heyrði einmitt brot úr hljóðupptöku á nýjum diski, sem ég held að sé hvað vinsælust í Noregi þessa daga. Þar heyrir maður hljóð mismunandi bátavéla og þeir sem kunnugir eru þekkja svo vélarhljóðin sundur eftir vélartegundum. Já. Svo klár varð ég nú aldrei.
Meiri kveðjur
Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 11:06
Ég er gersamlega sammála þér, vinkona mín, um að hafa það sem meginlífsviðhorf að horfa á hálf-fulla glasið fremur en hálf-tóma. Ég er sífelldur boðberi glaðlyndis, bjarsýni, jákvæðni og vonar, en verð stundum svolítið leið á sjálfri mér.... (og aðrir örugglega líka, í enn meira mæli!) Og þá þyrmir yfir mig vonzka og óréttlæti heimsins og ég fer í svona hugmyndafræðilega krossferð innra með mér. Oftast "akta ég ekki út", en stundum bara verður maður!!
Takk fyrir innlitin, elsku konur mínar.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.11.2008 kl. 13:38
PS: Og líka takk fyrir innlitið, Bjarne, hver sem þú ert....!!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.11.2008 kl. 13:38
Þessi síða þín hefur lækningamátt Kíki alltaf annarslagið og ég hreinlega elska það sem þú hefur fram að færa. Hér getur maður fengið sér fallega skreyttar kökur og kruðerí og það án þess að það setjist utan á mann, svo ekki sé nú talað um kaffið sem fagurlega er á borð borið. Þér tekst að gera heimsóknirnar til ömmu ljóslifandi lyktina og andann á þeim tíma.
Það er bara svo notaleg stemming hérna, maður dettur út og gleymir stað og stund og hver þarf ekki á því að halda í dag á þessum síðustu og verstu ?
Takk fyrir alla jákvæðnina og huggulegheitin,
Valan, 1.12.2008 kl. 15:03
Takk fyrir þetta, kæra Vala. Sú sem hér skrifar (stundum) er lífsnautnaseggur og bóhem .... Það er banvæn blanda, náttúrulega.... Góðar kveðjur til þín
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 1.12.2008 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.