Innlegg í umræðuna

Morgunblaðið, 11. júní 2002, eftir Jóhannes Björn:

Fátt er hvimleiðara en að hlusta á atvinnugóðmenni (presta) tyggja sömu vitleysuna ár eftir ár eins og biluð hljóðskífa. Með eldmóði sem ríkisstarfsmenn einir geta tamið sér muldra þeir um eingetinn son guðs sem var negldur á kross svo við öll mættum lifa. Birgir Baldursson bendir í nýlegri grein í Mbl. á þessar bábiljur, en gerir síðan þau mistök að hefja vísindamenn í svipað veldi og kirkjan naut á minna upplýstum tímum. Það er engum til góðs að gera þann hóp vísindamanna sem spáir í eðli og uppruna alheimsins að nýrri prestastétt. Birgir segir orðrétt:

"Vísindunum hefur í megindráttum tekist að skýra heiminn mekanískum skýringum. Allar fullyrðingar um tilhlutan yfirnáttúrlegra afla við gerð og stjórnun hans eru óþarfar, mekanískar skýringar nægja. Allt slíkt tal verður því að telja getgátur og sé slíkt boðað sem sannleikur má flokka það undir hindurvitni."

Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það merkilega er að mekaníska skýringin á tilverunni verður ósennilegri með hverjum deginum sem líður. Newton/Einstein-heimurinn er ágætur til síns brúks, en það er augljóst að raunveruleg svör um alheiminn fást aðeins í gegnum "quantum mechanics" (skammtafræði) og þau vísindi eru að mörgu leyti að verða dularfyllri. Ef eitthvað er þá virðist skammtafræðin vera á góðri leið með að sanna að lífið sjálft sé ríkjandi afl í alheiminum.

Í stuttu máli þá fjallar skammtafræðin um frumeindir og þaðan af smærri eindir. Í þeim heimi gilda engin venjuleg lögmál um tíma, hraða eða vegalengdir. Enginn veit hvernig það má vera, en árangur tilrauna með frumeindir fer algjörlega eftir því hver er viðstaddur til að meta útkomuna. Ef ekkert vitni sér tré falla út í skógi, var spurt hér áður fyrr, féll þá nokkuð tré? Í heimi smæstu einda er svarið nei.

Miklihvellur

Fyrir hundrað árum störfuðu stjarnvísindamenn eins og aðrir vísindamenn. Þeir uppgötvuðu ný fyrirbæri og reyndu síðan að útskýra eðli þeirra. Þetta byrjaði að breytast með "big bang"-kenningunni og í dag hafa vinnubrögðin alveg snúist við hjá þessum spekúlöntum. Fyrst dreyma þeir upp ákveðinn raunveruleika og síðan smíða þeir kenningar sem falla að þessum nýja raunveruleika. Mannlegi þátturinn hefur líka sitt að segja og það hefur t.d. vissan rómantískan blæ þegar lamaður maður sem talar með hjálp tölvu tekst á við alheiminn. Hér er auðvitað átt við Stephen Hawking, sem sendir frá sér straum skemmtilegra hugmynda er enginn getur sannað eða afsannað. Getur einn alheimur getið af sér aðra alheima (skapað "baby universes") eða er hægt að sameina öll lögmál alheimsins—eins og Lord Kelvin taldi á næsta leiti fyrir heilli öld—í eina litla jöfnu? Hver veit? Hawking getur þó varla verið alvara þegar hann talar um að afhjúpa leyndardóma alheimsins með því að pára nokkur tákn á blaðsíðu. Hann veit vel að stærðfræði er kerfi sem byggir á fenginni reynslu, ekki ósvipað sagnfræði sem þekkir fortíðina en getur ekki spáð í framtíðina nema að litlu marki.

Miklihvellur er vissulega stór hugmynd sem haldið er á floti með miklum heilabrotum og endalausum kenningasmíðum. Til þess að hugmyndin gangi upp þá verðum við að gera ráð fyrir óhemju efnis í alheiminum sem hingað til hefur verið ósýnilegt. Ef alheimurinn fæddist í sprengingu fyrir um 14 milljörðum ára þá er auðvelt að reikna út nokkuð jafna dreifingu efnisins. Þegar byrjað var að kortleggja alheiminn þá kom hins vegar í ljós að stjörnuþyrpingar (vetrarbrautir) höfðu víða þjappað sér í 500 milljón ljósára klumpa, oft með um 500 milljón ljósára gapi á milli klumpaþyrpinga. Samkvæmt ríkjandi kenningum þá ætti þjöppun af þessu tagi að taka um 100 milljarða ára.

Það er ekki hægt að benda á alla vankanta miklahvells í einni blaðagrein, en ekki má gleyma þeirri staðreynd að stjörnuþyrpingar hafa fundist sem eru töluvert eldri en "big bang." Það eitt ætti að nægja til að menn hugsi sig um tvisvar áður en þeir kyngja kenningunni hrárri. En ef alheimurinn varð til með einni frumsprengingu þá hlýtur einföld spurningin að vakna: Hvað var það sem sprakk og hvaðan kom það? Það er auðvelt að segja að einhvers konar skammtaflæði (quantum flux) hafi átt sér stað en skammtafræðin gerir ráð fyrir að einhver sé viðstaddur þegar það gerist (í skammtafræði veltur útkoman á þeim sem mælir fyrirbærið og tilraunir hafa sýnt að sá sem mælir getur jafnvel ákveðið útkomuna fyrirfram). Í nýlegri grein í New York Times er málið leyst með því að teikna auga sem horfir á skammtaflæðið við fæðingu alheimsins!

Það þarf mikið hugmyndaflug til að halda "big bang" á floti. Sumir vísindamenn tala um ósýnilega strengi sem liggja þvers og kruss um alheiminn—alheim sem við skynjum í þrívídd en er í raun þjappaður inn í margar fleiri víddir. Einn slíkur heldur fyrirlestra á Guggenheim listasafninu í New York og lætur strengjakvartett spila í bakgrunninn á meðan áhorfendur dreypa á rauðvíni! Aðrir vísindamenn láta sig dreyma um ofurstrengi, ósýnilegt og hingað til ómælt afl sem ýtir efninu saman. Þannig mætti lengi halda áfram.

Óþekkt náttúruöfl


Bætt tækni til að afla upplýsinga um alheiminn og vinna úr þeim hefur nýlega dregið fram í dagsljósið fjölda fyrirbæra sem enginn skilur. Hér er ekki verið að tala um einhver minni háttar frávik, heldur hluti sem hreinlega kollvarpa Newton/Einstein-veröldinni. Ef það var miklihvellur fyrir um 14 milljörðum ára þá ætti þensla alheimsins að hægja á sér með hverju árinu sem líður. Vísindamenn urðu nýlega furðu lostnir er mælingar sýndu að alheimurinn þenst út með vaxandi hraða. Nýtt afl, andþyngd, virðist hafa skotið upp kollinum. Vísindamenn urðu ekki minna hissa þegar þeir staðfestu mælingar á hraða þriggja bandarískra gervihnatta sem eru á siglingu út úr sólkerfinu. Þeir eru allir að hægja á sér og engin skýring er handbær. Nýtt afl, kannski það sama og heldur vetrarbrautum saman, virðist vera fundið (sýnilegur massi stjörnuþyrpinga nægir ekki til að láta þær loða saman og fræðilega séð ættu þær að gliðna í allar áttir). Við skiljum orku nokkuð vel, en efnið sjálft er enn ráðgáta sem menn hafa reynt að leysa með 30 ára leit að svokallaðri Higgs-öreind (nefnd eftir Peter Higgs við Edinborgarháskóla). Margir eru byrjaðir að hallast að þeirri skoðun að Guðs-öreindin, eins og Higgs-öreindin er of kölluð, sé einfaldlega ekki til og eðlisfræðin sitji uppi kenningalaus um sjálft efnið.


Ég vona að Jóhannes Björn fyrirgefi mér að ég tek greinina hans og birti hér. Ég veit að hann er víðsýnn maður og vill stuðla að upplýstri umræðu. Í ljósi þess birti ég þetta hér. Efnið verður vart orðað betur. Bendi öllum á bækur Jóhannesar Björns og vefsíðu,

http://www.vald.org/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Frábær lesning.....ég er mikill aðdáandi Jóhannesar eftir að ég las bók hans falið vald fyrir fjölda mörgum árum. Svo gott að eiga svona víðsýnt og velþenkjandi fólk.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.11.2008 kl. 12:07

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Nákvæmlega, Katrín. Annars finnst mér ég vera eitthvað dálítið banal og barnaleg með þessar pælingar hérna .... setti þetta inn, vegna umræðna um efnið á allt öðrum vettvangi en blogglegum .... Svona grípur þetta mann bara. Skíttolaggó!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 2.11.2008 kl. 23:17

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held að ´g og Jóhannes Björn séum andlegir tvíburar.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.11.2008 kl. 23:28

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Já, því gæti ég algerlega trúað! Ég held að ég sé svolítið skyld ykkur ....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 2.11.2008 kl. 23:29

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er víst þannig með skammtafræðina að ef þú segist skilja hana, þá er nokkuð víst að þú skiljir hana ekki;  sagði Carl heitinn Sagan.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.11.2008 kl. 23:30

6 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Það er nú dálítið typiskur frasi fyrir Carl Sagan, með fullri virðingu fyrir honum. Ég held nú reyndar að enginn skilji skammtafræðina, nema fáir útvaldir, en þeir eru allmargir sem skilja að afneitun á henni kann ekki góðri lukku að stýra. N´est pas? Og svo getur maður haldið áfram; hvað er að skilja? Hvenær skilur maður eitthvað?

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 2.11.2008 kl. 23:46

7 identicon

Þetta eru bara yndislegar pælingar og henta mér svo vel núna.  Allt er í heiminum hverfult eða hvað?  Hvað sem öllu líður er eitt öruggt og það er smæð okkar í þessum alheimi og ekki skrýtið að erfitt sé að skýra hann og skilja til fullnustu.  Þetta með smæðina og hið óútskýranlega hjálpar mér á svona tímum.  Hvað er maður að brotna undan einhverju efnislegu smáræði, ef litið er til alheimsins?  Það er spurning.  Þetta með t.d. útþennslu alheimsins þvert ofan í spár segir enn og aftur hve stutt við komumst í því tilliti, þrátt fyrir menntun, framfarir og ótrúlega þróun.  Komumst við í raun nokkurn tíma að hinum raunverulega kjarna. 

En það er svo gott að til skuli vera fólk sem veltir þessu fyrir sér.  Það er svo yndislegt að fá þetta svona vel framreitt.

Takk elskan mín.

Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:00

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

11 Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn,
hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn.
En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.
12 Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum,
en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.

13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.
Úr fyrra bréf Páls til Korintumanna.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.11.2008 kl. 23:41

9 identicon

Þetta eru afar áhugaverðar "pælingar" um lífið og tilveruna og ef mér skjátlast ekki þá hafa öreindafræðingar sett fram kenningu í fullri alvöru sem gerir ráð fyrir mun fleiri víddum í rúminu eða samtals tíu. (Ef við teljum tímann með sem eina vídd til viðbótar verður vídd tímarúmsins ellefu). En strengjafræðinni sem Jóhannes Björn nefnir í afar fróðlegri grein sinni, er ætlað að lýsa skammtafræði þyngdaraflsins, en þar hafa engar aðrar kenningar dugað til, og jafnframt er hún sameiningarkenning sem fléttar saman fræðilega lýsingu á öllum þekktum öreindum náttúrunnar og víxlverkunum þeirra.
Takk Guðný Anna og bestu kveðjur



 

Viðar H. Eiríksson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðný Anna Arnþórsdóttir
Guðný Anna Arnþórsdóttir

Netfang:                gudnya@regis.is
Önnur bloggsíða:   www.123.is/gudnyanna

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_0469
  • IMG_0452
  • IMG_0468
  • 3778637139 2cd7aca945
  • 7 QUINOA SALADE MIYOU
  • 5  NOT IN PARIS WAITER
  • 3 CARETTE WHEE FR PPL GO
  • 2 quinoa paris

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband