Dúkkulísur

12222966_p12223000_p

Allir sem fæddir eru fyrir sjónvarp og tölvuleiki, muna eftir hlutverkjaleikum í æsku sinni, sem fólust í því að leika sér með pappírsteikningar, svokallaðar dúkkulísur eða baby-dolls.  

Þetta var afar skapandi leikur og      stórmerkilegt samfélag sem þessar   persónur lifðu og hrærðust í.

Þegar leiktjöldin sem fylgdu í pakkanum (frá Reykjavík eða Danmörku; jafnvel Svíþjóð) þrutu, þá voru teiknuð ný úr pappaspjöldum, skókössum og öðru tiltæku. Þarna urðu til sannkallaðir ævintýraheimar og umtalsverð design-afrek.   

Stelpur léku sér aðallega í þessum leik, en strákum þótti það heldur til minnkunar. Þó áttu þeir til að samþykkja leik, ef maður sór þess dýran eið, með hönd á Biblíunni eða Jónasi Hallgrímssyni að segja engum frá. Þá áttu þeir það til að gleyma sér gersamlega í leiknum. Þeir "voru" alltaf strákurinn eða maðurinn, en stelpurnar "voru" stelpan eða konan. Stelpurnar urðu alltaf að vinna það vandaverk að klippa út persónur og leikmuni, því strákarnir voru svo klaufskir við það.  Kannski varð önnur skálmin þá svoleiðis að sá í fótinn - og það þurfti nú minna til að slægi í brýnu með leikstjórum og af hlytist nokkurra klukkustnda stórfýla.  

Óneitanlega eru þau hér á myndunum að ofan afskaplega sakleysisleg og "góðubarnaleg."  Það var talsverð framför þegar á markaðinn komu dúkkulísur sem sýndu ýmis geðbrigði og voru sumir ekki seinir á sér að taka þær í brúk. Þarna skapaðist ágætis grundvöllur til að æfa sig fyrir  kenjar mannfólksins og  lífsins síðar meir. 

19194183_p19194183_p

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ekki voru það allt krakkar sem við leikstýrðum, heldur var líka unnt að fá dæmigerða millistéttarfjölskyldu, mömmu, pabba og svona tvö til þrjú börn, algera konformista.

21007639_p21007609_pÞað gat orsakað talsvert öldurót í barnssálum að eiga við fjölskyldulíf og barnauppeldi, með öllum þeim hugsanlegu átökum, skoðanaskiptum, reglum og hindrunum sem því getur fylgt.  Stundum urðu deilur um uppeldisaðferðir eða hvort ætti að vera laukur inní kjötbollunum eða bara með þeim. Svo gat verið ansi viðkvæmt, hvernig litir pössuðu saman á fötum. Lyktaði þeim iðulega með að annar leikstjórinn rauk á dyr og skellti svoleiðis hurðum að myndir hristust á veggjum. Það voru kallaðir sex Richtara skellir. Flest fór nú samt fram í margra klukkutíma sátt og samlyndi. Til urðu langar sápuóperur sem stóðu dögum, jafnvel vikum saman.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Ég man þá tíð ... endalaust sem þessar pappadúkkur tóku tímann frá.

Sniðugt að garfa í minningunni því mín fyrsta kemur nebbl. frá Eskifirði.  Eigðu góðan dag og yndislega helgi.

www.zordis.com, 27.6.2008 kl. 07:30

2 identicon

Þetta var dásamlegt innslag hjá þér eins og alltaf. 

Já.  Hvort ég man þá tíð.  Þú varst líka með eindæmum drátthög og hannaðir bæði mannfólk og klæði í þessum leikjum.  Ég man að setið var tímunum saman og teiknuð föt því oftast var fataúrvalið fremur rýrt sem fylgdi.  Ég man þann mesta munað sem ég leyfði mínum dúkkulísum og það var að í þessum heimi hafði ég þvottahús.  Þangað gátu dúkkulísurnar mínar skilað öllum óhreinum fötum og sótt að stundu liðinni.  Þar þurfti ekki heilan þvottadag í sjóðheitum kjallara, þar sem hvítur þvottur var soðinn í sér potti, þar sem fiskifatnaðurinn var dreginn úr bleyti og nuddaður á þvottabrettinu, þar sem ég þurfti að standa við og snúa vindunni áður en farið var út á snúrur og hengt til þerris.   Þvottadagurinn var alltaf erfiður og eftir hann var mamma þreytt, enda útivinnandi aðra daga. 

Já.  Það var mikill munaður að hrærast í þessum heimi og þar held ég að öll lífsins vandamál hafi á tiltölulega einfaldan hátt verið leyst. 

Ég fagnaði alltaf rigningu því þá mátti ég vera inni að leika mér.  Annars var ætlast til að maður væri utandyra nema einhver verk væri að vinna inni. 

Nú er bara lúxus og ég flýg út seinni partinn í dag.  ,,Dúkkulísulíf". 

Hafðu það sem best.  Sumarfaðmlag.

Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 08:08

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Skemmtileg lesning hér að vanda. Takk fyrir að rifja þetta upp. 

Knús til þín mín kæra og góða helgi

Marta B Helgadóttir, 27.6.2008 kl. 12:55

4 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég var alltaf í annað hvort dúkkulísu leik eða barbí/tressí leik !!

ég held að það hafi verðið mjög góð leið að komast út úr því fjölskyldumynstri sem var vanalegt á þeim árum. að upplifa ævintýri í gegnum fjölskyldurnar okkar sem aldrei áttu menn, áttu fjölda barna voru á flótta undan heiminum með börnin sín í bala sem var skip á víkuránni. voru fátækustu konur í heiminum og fallegustu.

þetta var gaman !!1

Kærleikur til þín

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 27.6.2008 kl. 19:09

5 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

Þessi færsla vekur óneitanlega upp gamla og skemmtilegar minningar.... ég var allveg forfallin í dúkkulísu- og barbieleikjum og lifði mig inn í þennan heim.... nokkrum árum síðar þegar börnin mín, sérstaklega stelpurnar uppgötvuðu þennan heim þá erfðu þær gersemarnar mínar..... einkasonurinn var aftur á mótil ekki tilkippilegur í þennan fjára..... en lét stundum til leiðast..... en þær systur voru ekki alltaf parhrifnar af hans tilþrifum því oftar en ekki heyrðist innan úr herberginu..... "Já en Kalli..... maður drepur ekki í Barbie..."... en þá var minn komin í kaf í He-man eða hvað þetta heitir allt saman.....

Fanney Björg Karlsdóttir, 27.6.2008 kl. 22:29

6 Smámynd: Laufey B Waage

Ég gerði líka þó nokkuð af því að teikna, lita og klippa ný föt handa mínum dúkkulísum.

Mamma mín hefur af og til gaukað dúkkulísum að ömmustelpunum sínum - og skilur ekki af hverju þær eru ekki jafn hrifnar og við systurnar vorum. Ég skil það ekki heldur.

Takk fyrir þessa upprifjun og bráðgóðar myndir. 

Laufey B Waage, 28.6.2008 kl. 10:40

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Yndisleg minning   ég átti sko mikið af dúkkulísum og gat leikið mér tímunum saman með þær.  Ég klippti út myndir af eldavélum og ísskápum úr Hjemmet og notað gamlan stóran fataskáp til að skapa herbergi.  Þetta var svoooo magnað.  Kær kveðja til þín og eigðu ljúfa helgi.

Ásdís Sigurðardóttir, 28.6.2008 kl. 14:07

8 Smámynd: Bjarney Hallgrímsdóttir

O, gaman af þessu - því þetta rifjar heldur betur upp gömlu dagana. ég átti nú eitthvað af þessu og fannst voða gaman að leika mér með þetta

Bjarney Hallgrímsdóttir, 29.6.2008 kl. 01:01

9 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Gaman að lesa viðbrögð ykkar - og samkennd. Já, ég bjó til aukaföt á dúkkulísurnar, voðalega skipulegt, einn flokkur (með ca 10 dressum) fyrir berjamó, einn flokkur fyrir ball í Ungó, einn flokkur fyrir ferðalag til Norðfjarðar og svo fyrir lautarferð í Hallormsstað. 

Svo gerði líka svona eins og þú Ásdís, klippti út allan skrattann og límdi á spjöld, sem síðan voru interiors.  Þarna reyndi sannarlega á hugmyndaauðgi og sköpunargáfu.

Ég man alltaf eftir að uppáhaldsdúkkulísurnar mínar voru Kim Novak og Pat Boone.

Já, strákarnir voru dálítið æstari í leiknum en stelpurnar. Þeir vildu dáldið vera að berjast og gera út um málin með hnefum og aflsmuni. Það liðum við siðprúðu, litlu kellingarnar ekki.  

Ó já, gömlu, góðu rigningardagarnir .... Stundum var áþján að hafa sól dag eftir dag, þá urðu lísurnar að bíða, því ef maður reyndi að taka þær útá hlað, fuku þær útum allt.  

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.6.2008 kl. 13:05

10 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég man sannarlega eftir dúkkulísunum og átti þónokkrar. Systir mín bjó til sínar eigin og átti fullar skúffur af dúkkulísum og alls konar föt á þær.

Steingerður Steinarsdóttir, 2.7.2008 kl. 15:30

11 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

Gaman að þessu.

Sólveig Hannesdóttir, 2.7.2008 kl. 21:54

12 Smámynd: Heidi Strand

Þetta var skemmtileg upprifjun.

Heidi Strand, 3.7.2008 kl. 18:10

13 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

Ég verð að segja eins og er, að það er fyrst núna sem ég skil að ég var einnig í hlutverkaleik, ekki bara Baldvin og Solla, ég hefi bara ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég sá þessa færslu.  En mikið hefi ég annars verið lengi í þessum hlutverkaleik, líklega bara of lengi, þar sem ég átti mjög erfitt með að slíta mig frá dúkkulísunum.

   Guðný mín, þarf ég að hafa áhyggjur af því???????

Sólveig Hannesdóttir, 5.7.2008 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðný Anna Arnþórsdóttir
Guðný Anna Arnþórsdóttir

Netfang:                gudnya@regis.is
Önnur bloggsíða:   www.123.is/gudnyanna

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0469
  • IMG_0452
  • IMG_0468
  • 3778637139 2cd7aca945
  • 7 QUINOA SALADE MIYOU
  • 5  NOT IN PARIS WAITER
  • 3 CARETTE WHEE FR PPL GO
  • 2 quinoa paris

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband