Strandgatan

ThumbImage154

Það er þoka.

Hómatindurinn er sveipaður skýjadulum, já eiginlega skýjadruslum. Ævintýralegt. Það er eins og bómull vefji sig um kletta, gljúfur, mela og móa. Og fjarðarmynni. Ég sé götuna heima, sem liðast um þorpið, Strandgötuna. Einhverjir segja að þetta sé dautt þorp, að þar líti út fyrir að búi eintómir dauðir menn. Þvílík vitleysa, þvílík andleg fátækt að halda það.  Þeir hinir sömu hafa t.d. aldrei komið í Markúsarbúð. Þar er Sigurþór fyrir innan borð, í blá-köflótta vestinu sínu, kankvís að vanda. Þar eru allar innréttingar úr viði og manni finnst eiginlega að Sigurþór sé úr viði líka.. Hann er samt ótrúlega human. Dóttir hans er Agnes sem er einskonar vinkona mín. Ég kem í búðina og segi hægversk: „Er til lakkrís?“ Ég var send af Snorra á Mel og Bjarna Lullu. Sigurþór segir: „Var allur larkkrísinn búinn hjá honum pabba þínum?“  Og ég veit um leið að hann veit, að ég lét mana mig, ég var höfð að fífli. Því allur lakkrís heimsins er til hjá honum pabba mínum.  Að ég lét plata mig. Svo ég segi nú sisona við Sigurþór: „ Æ, ég segi nú bara svona, til að fitja uppá samræðum....“ Og Sigurþóri fannst ég svo skemmtilega skrýtin. En ekki Snorra og Bjarna, þeim fannst ég ekki skemmtileg að koma lakkríslaus úr ferðinni.

Markúsarbúðin er í sama húsi og þau búa, Inga og Ingólfur. Þar kem ég oft, því þar á Golli vinur minn heima. Við erum ógnarlegir vinir, en engir mega vita það. Ég veit ekki af hverju það er eiginlega svona mikið leyndarmál. Ég kem upp á efri hæðina í Hallgrímshúsi til Golla og það brakar svo notalega í gólfinu. Eldhúsið er stórt og umsvifamikið. Þar er gott að fá nýbakaðar vöfflur hjá Ingu. Hún er strýðin og skemmtileg. Hún skiptir um gardínur eftir árstíðum og segir mér hvernig hún saumar bekkina á gardínurnar. Ég skil ekki bofs, en nikka skilningrík. Hún er skyggn og segir: elskan min, þú ert svo listhneigð, svo gáfuð, þetta er alveg fyrir ofan þig. Ég hugsaði í mörg ár um, hvað gæti verið fyrir ofan mig, en fékk svonsem ekk botn í það, fyrr en kannski nú. Eða hvussu hvums? Svo var einhver lykt hja Ingu og þeim í Hallgrímshúsi. Svona höfug lykt, af flaueli, plussi, ilmvatni, vöfflubakstri, vindlum, ég  veit ekki hvað. Einu sinni sagi Inga við mig: „Elsku, þú varst svo ung þegar þú varst að þykjast reykja í skúrnum, þú verður án efa mikilmenni...“ Ég ætla ekki að reyna að útskýra hversu stórfengleg ráðgáta þessi orð voru, né heldur samhengið í hugsunum Ingu. Hinsvegar man ég okkur Snorra á Mel reykja Malbourogh sem ég stal frá pabba í þurrkhallinum hennnar Ingu, -og einmitt þegar mamma hafði fengið snúrupláss hjá Ingu í hallinum og hún (mamma) sagði: „ oh, hafa nú einhverjir skrattakollar verið að reykja hér.“  Þegar ég sagði Snorra frá þessu, sagði hann einfaldlega: „ Svona er lífið, Guðnyanna mín, skrattakollar, - hm, hvað hélstu...?“  Ég reyndi að hafa ekki áhyggjur, en svona er lífið. Ég minnti Snorra á þetta fjörutíu árum seinna og hann þóttist ekki muna hversu spakur hann hafði verið og næmur á tilveruna og samhengi hennar.

Fjörutíu og átta árum síðar hitti ég son Snorra sem er þá giftur dóttur heimasætunnar í Hallgrímshúsi, Friðnýju. Ó, hvað manni bregður við að tíminn liði og mennirnir breytist. Hvernig gat þetta orðið svona?

Við hliðina á Ingólfshúsi var lítið hús, samfast. Þar bjó Strúna sem varð mér mikil andleg uppspretta. Ég vissi að þetta var stórgáfuð og fróð kona. Ég lét hinsvegar tilleiðast með öðrum og stríddi henni með ýmsum brögðum eins og því að nudda eingrunarplasti á gluggana hennar. Hvað ég get fyrirvarið mig núna. Hún tók þessu ekki af skapstillingu og elti okkur um allar koppagrundir með sóp í hendi og sór þess dýran eið og koma okkur öllum til vítis. Ég átti í erfiðum samræðum við guð eftir þessa atburði, en krakkarnir, vinir mínir, vissu ekkert af því.  Og Snorri, Benni og Bjarni hefðu ekki skilið mig. Né myndu gera enn í dag, þó ég vissi að þeir hefðu átt í álíka samræðum og ég.

Okkar megin í götunni, Pöntunarmegin, var auðvitað húsið okkar, Sundforshús, síðar kallað Framnes, og svo Pöntun, búðin eina sanna í öllu þorpinu. Seinna átti sú bygging eftir að verða bókabúð og byggingarvöruverslun, hvar ung stúlka úr Verslunarskólanum afgreiddi á sólríkum sumrum. En nú var þetta aðalbúðin. Ekki leiðinlegt að spranga þar um og kaupa kjötfars af Sissa, mjók af Ragnari -  og Omo og Sparr. Ég held að Ása og Gússa hafi verið á kössunum, samt man ég það ekki alveg.  Seinna átti ég eftir að afgreiða á kassanum í  bókabúðinni og bíða eftir bréfum frá Fidda. Það er önnur saga.

Ég man lykt af soðinni ýsu. Og kvöldfréttir. Og sólin að síga í fjarðarmynni.

Ég man Hlöðver í Bakaríinu og hvað ég var hissa að sjá Herdísi ekki á peysufötum. Samt var dóttir þeirra Grímhildur vinkona mín. Húsið þeirra var svoleiðis, að svoleiðis ætlaði ég að hafa mitt.

Ég man pabba að spúla búðina utanvert  á laugardegi og „Svanagöngur á heiði“ í útvarpinu.  Við krakkarnir í „yfir“ á húsinu heima og Fúsa Viggóss að segja mér að það skipti máli að hinir töpuðu. Seinna áttum við eftir að labba saman á fallegu sumarkvöldi á planinu neðan við Lúthershús.  En ekki söguna meir.

Ég man mömmu á tröppunum við Sundförshús, meðan þar voru enn glæislegar tröppur, að segja „velkomin elskurnar mínar“ þegar bróðir minn og fjölskylda hans var að koma í  bæinn. Þá var lífið í hæstum hæðum en fór í neðsta þegar þau fóru aftur. Enginn skildi söknuð lítillar stelpu nema mamma. 

Ég man hvað lífið  var skemmtilegt, fullt af lífi, skemmtilegu fólki, góðri lykt og gæðum.  En það var líka bara Eskifjörður. Hvað bar mann þaðan? Ég sem ætlaði bara að giftast einhverjum strák heima og vera þar alltaf - þegar ég var átta ára og vissi ekki að heimurinn yrði eitthvað annað en Eskifjörður. Hefur hann orðið eitthvað annað?

Ég er samt sæl, ég er Eskfirðingur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Skemmtilegt að fá að skyggnast inn í líf þitt sem eskfirðings. Eskfirðingur ;)

Hrönn Sigurðardóttir, 22.6.2008 kl. 00:21

2 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

....yndisleg færsla....iðandi af mannlífinu á Eskifirði.....

Fanney Björg Karlsdóttir, 22.6.2008 kl. 13:05

3 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

Fallegt Guðný mín.

Sólveig Hannesdóttir, 22.6.2008 kl. 20:12

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Já, margt var brallað í þokunni .... !

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 22.6.2008 kl. 22:06

5 Smámynd: Valan

Það er nú bara óþolandi að vakna eftir svona yndislegan lestur, finnst einhvernvegin lífið hafa verið svo laust við allar áhyggjur þegar maður var lítill, allir höfðu allan heimsins tíma til að spjalla og bralla eitthvað skemmtilegt, alveg dásamlegt. Ég man að sjálfsögðu eftir flestu þessu fólki, náði að koma nokkrum sinnum í Sigurþórs búð áður en hann hætti. Dásamlegur kall.

Valan, 23.6.2008 kl. 10:38

6 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þú ert mjög góður penni nafna. þessi færsla var eins og maður gripi niður í góða bók um gamla tíma.

Svava frá Strandbergi , 23.6.2008 kl. 21:59

7 identicon

Ó hó - ég segi ekki annað.  En yndislegur lestur.  Þakka þér fyrir, hvílík dásemd.  Já.  Eskfirðingur.  Það verður ekki frá manni tekið, það eitt er víst.  Myndbrotin hrannast upp í hugann eftir þessa litríku og skemmtilegu lýsingu þína.

Takk aftur elsku vinkona.

Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 00:38

8 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk fyrir jákvæð viðbrögð góðir Íslendingar og Eskfirðingar, Jensenar, Sunnlendingar og kynfræðingar!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.6.2008 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðný Anna Arnþórsdóttir
Guðný Anna Arnþórsdóttir

Netfang:                gudnya@regis.is
Önnur bloggsíða:   www.123.is/gudnyanna

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0469
  • IMG_0452
  • IMG_0468
  • 3778637139 2cd7aca945
  • 7 QUINOA SALADE MIYOU
  • 5  NOT IN PARIS WAITER
  • 3 CARETTE WHEE FR PPL GO
  • 2 quinoa paris

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband