Af konu

Rjúpnahæðin blasti við. Konan ætlaði bara að snúa við á snjóblautum, óræðum veginum, þegar óbyggðirnar blöstu við í upphæðum Kópavogs og ljóst var að hún hafði ekki fundið rétta götu. Þá sökk bíllinn utan vegkants, með svona skvamphljóði, blllllúppp, það minnti á rússnesku. Spól, spól, ekki sjéns að hnika bílnum. Konan hringdi í besta vin sinn sem kom með svo flottan kaðal að konan ætlaði ekki að týma að binda hann milli bílanna. Það var nú gert samt og upp fór bíllinn, rúúúúmmm, búúúmmm. Þetta var á Valentínusardaginn. Það var mjög rómantískt að lemjast um í rigningunni á Rjúpnahæðinni. Tilgangurinn með ævintýrinu var að fara í heimsókn til einnar alveg óhuggulega skemmtilegrar konu. Hún beið með matinn fyrir hrakfallabálkinn - og allar hinar konurnar þurftu að bíða líka og voru orðnar aggressívar af hungri þegar kona úr helju heimt birtist á svæðinu. Það var engin samúð, bara "á borðið með matinn!!!" Eða næstum svoleiðis.

Kona sat í pallborði í Háskóla Íslands meðal annarra geðsinnaðra, geðríkra, geðreynslumikilla kvenna og sagði ungum og upprennandi hjúkrunarfræðingum frá staðreyndum lífsins. Og geðsins. Öldungis bara alveg ágætt. Konan varð þó svolítið skrýtin innumsig þegar hún uppgötvaði að þessir nemendur hefðu tæpast verið fæddir þegar hún  útskrifaðist úr þessum sama háskóla.

Það er Þorrablót framundan og konan á leið þangað. Hún er um það bil að renna frá húsinu á sjálfrennireið sinni, er hún man eftir rauðvínsflöskunni sem hún ætlaði að taka með og skreppur á spariskónum inn. Flaskan þrifin, út skal haldið aftur, orðin alltof sein, ó, guð. Á leiðinni út rennur konan snyrtilega á þröskuldinum og skellur aftur inná náttúruflísarnar með miklum dynk. Mokkakápan baðast í volgu blóði og ögn kaldara rauðvíni. Hvílíkt rauðvíns-blóðbað. Besti vinur konunnar var kvaddur til og plástraði hann allt fagurlega í bak og fyrir og litaði nokkur handklæði og moppur bleik. Á blótið var haldið með allt plástrað í bak og fyrir. Það eru enn marblettir hér og þar á konunni, - og Mokkakápan er skjöldótt.  Enga brandara, takk.

Það er fundur í einum af mörgum félögum konunnar og hún horfir á myndband um meðferðaraðila einn, sem félagsmenn bera ómælda virðingu fyrir.  Konan lifir sig svo inní myndina, að óskeikult tímaskyn hennar brenglaðist og allt í einu höfðu liðið þrjú korter. Brá henni svo mjög  að hún skráði þetta vandlega hjá sér. Dagurinn sem hún gleymdi sér um sinn og hvarf á vit annarra heima. 

Það er kaffi með vinkonu á kaffihúsi. Það er kaffi úr æpandi og spúandi maskínu og góð eplakaka. Það er eitthvað svo sjarmerandi að sitja við mátulega sjúskað borð og horfa útum glugga í bláleitt, blautt vetrarlegt síðdegi í borg við norðurskautsbaug.  Expressóhvinurinn í loftinu, lágvær salsatónlist í hátalara, í svoleiðis argasta ósamræmi við stemminguna í reykvískum hversdagsleika. Lykt af blautum úlpum og skinkusamloku sem var í örbylgunni. Fegurðin býr stundum ekki bara í fjöllunum.

Það er brunch hjá vinkonu á sólríkum sunnudegi. Konan hittir þar fólk sem hún hefur aldrei séð. Gaman að virða það fyrir sér, hlusta á bak við orðin og fá smátt og smátt heildarmynd úr þúsund smáatriðum. Gaman að verða aldrei leiður á slíku. Þó að konan segi stundum að allt væri svo ágætt, ef væri ekki allt þetta fólk.

Það er heimsókn til vina sem hafa eignast nýtt barnabarn. Jemundur, hvað fólk getur lifað sig inní ömmu – og afahlutverkið. En barnið er yndislegt og líkist konunni talsvert. Allavega hárið. Hún heitir Embla og er nýjasta vinkona hennar.

Það eru ný blöð á hárgreiðslustofunni. Hvílíkur andlegur niðurgangur og lágkúra. Samt les konan þetta af áfergju og skammast sín ekki einu sinni. Fær líka soðið kaffi frá í gær, en þar sem konan er alin upp á síldarplani og spítala er hún öllu vön. Og þykir meira að segja vont kaffi best. Hárgreiðslustofan er partur af lífi konunnar síðustu 20 ár. Hvað hún elskar þessa stofu, blöðin og soðna kaffið. Það er hins vegar einhver misskilningur sem birtist henni í speglinum, einhver allt önnur kona sem situr þarna í einskærum misgripum. Farin að líkjast mömmu hennar á efri árum, þó ekki jafn falleg og blíðleg.  

Framundan hjá konunni, til dæmis: Konung- og drottningarleg móttaka einkadótturinnar sem er að koma í snöggfrí frá útlöndum.  Saumaklúbbur í Skuggahverfinu. Fjölskylduafmælisveisla á laugardaginn. Þær eru lang-skemmtilegastar, enda skemmtilegasta fólk á byggðu bóli sem verður þar.  Það er fólk sem er ekki þjáð af geðprýðisröskunum. Skíðaferð til Austurríkis.  Londonferð – um páskana. En núna: Himnaríki og hvelvíti eftir Jón Kalman. Bókina þá myndi konan kalla tilfinningalega og listræna upplifun. Og ekki orð um það meir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Skemmtileg lesning og vel skrifuð.

Svava frá Strandbergi , 22.2.2008 kl. 01:24

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

"Það er fundur í einum af mörgum félögum konunnar og hún horfir á myndband um meðferðaraðila einn, sem félagsmenn bera ómælda virðingu fyrir.  Konan lifir sig svo inní myndina, að óskeikult tímaskyn hennar brenglaðist og allt í einu höfðu liðið þrjú korter. Brá henni svo mjög  að hún skráði þetta vandlega hjá sér. Dagurinn sem hún gleymdi sér um sinn og hvarf á vit annarra heima" 

Þetta fannst mér bezt - þetta kemur stundum fyrir mig líka.

En þetta hafa verð viðburðarríkir dagar hjá þér konutetur. Eigðu góða og slysalausa helgi. 

Hrönn Sigurðardóttir, 22.2.2008 kl. 10:37

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég lifði mig inn í þessa lesningu og naut hennar í botn.

Steingerður Steinarsdóttir, 22.2.2008 kl. 11:16

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Skemmtileg lesning og margt að gerast hjá konu.  Eigðu góða helgi með skemmtilegasta fóli í heimi  Heart Glasses

Ásdís Sigurðardóttir, 22.2.2008 kl. 15:09

5 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

þarna trúi ég að Ásdís eigi við fólk.....

Hrönn Sigurðardóttir, 22.2.2008 kl. 19:52

6 Smámynd: www.zordis.com

Hehehehehehe ..... Kanski meinar Ásdís  = fól =  Ísmeygilegur karlmadur .....

(er ekki búin að lesa og kem á eftir)

www.zordis.com, 22.2.2008 kl. 20:26

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

:) hugsanlega meinar hún það......

Hrönn Sigurðardóttir, 22.2.2008 kl. 21:19

8 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég held að hún Ásdís mín meini nú bara fólk .... Hún er ekki það meinhorn að halda því fram að ég þekki einhver fól .... Hehehehe. Correct me if I´m wrong.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 23.2.2008 kl. 00:16

9 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

yndislegust.........var næstum búin að gleyma þessum yndislega húmor hjá konunni....

"Á blótið var haldið með allt plástrað í bak og fyrir. Það eru enn marblettir hér og þar á konunni, - og Mokkakápan er skjöldótt.  Enga brandara, takk. ".....

ég urlast...... en ég er nú bara saklaus "kleppari" í sveitinni......  

Ég verð að fara að hitta þig....... er komin með fráhvarseinkenni....manstu eftir öllum skemmtilegu slúðurstundunum okkar inn við Sundin blá........sem sagt ...hittingur óskast.....

Fanney Björg Karlsdóttir, 23.2.2008 kl. 22:50

10 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Skemmtileg skrif snilldarkona!

Marta B Helgadóttir, 24.2.2008 kl. 12:29

11 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Mér sýnist að það sé gaman í þínum bekk:)

Ég er að koma til Íslands um páskana og ætla að reyna að kíkja í heimsókn á SSR.... sakna ykkar allra þar:)

Kolbrún Jónsdóttir, 24.2.2008 kl. 21:03

12 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Já, þetta voru bara hinir viðburðarríkustu dagar. Og enn batnar það ....

Já, Fanney, ég fæ líka reglulega svona fráhvarfseinkennaköst ... sko, til í hitting whenever, whatsoever. 

Því eftir allt, hvað er betra en að hlæja í fríðra kvenna flokki?  

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.2.2008 kl. 21:53

13 identicon

Ennþá gerast ævintýr ...  Þetta er bara yndisleg kona.

Góða nótt knús elsku vinkona.

Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 23:36

14 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

frábær skrif, lifði  mig inn í þessa dásamlegu konu ! sem datt, en fór samt.

Takk !

Bless í bili og góð skemmtun með allt sem er framundan!

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 25.2.2008 kl. 16:13

15 Smámynd: www.zordis.com

Þessi kona á sér sterka sögu, hörkutól þó yndisljúf mær!  Takk fyrir þessa innsýn og snilldartakta! 

www.zordis.com, 25.2.2008 kl. 21:22

16 Smámynd:  Grétar Rögnvarsson

Svartur Volvo með einkennilegu númeri renndi fram hjá mér í fyrradag, ég reyndi að vinka en var of seinn, þóttist þekkja þar konu í framsæti, hálfpartinn feginn að hún sá mig ekki því ég gleymdi því sem ég lofaði, að koma með Færeyskar bókmenntir í hverfið, man það bara næst.

Grétar Rögnvarsson, 26.2.2008 kl. 10:18

17 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Skemmtileg lesning.

Er a Stansted flugvelli i London tannig ad tad er frabaert ad fa eitthvad gott ad lesa.

Bestu kvedjur Jenni.

Jens Sigurjónsson, 26.2.2008 kl. 14:51

18 Smámynd: Hdora

rosalega gaman að lesa bloggið þitt !!! haltu áfram að skrifa svona vel og innilega !!!

Hdora, 27.2.2008 kl. 21:13

19 Smámynd:  Grétar Rögnvarsson

Rekst örugglega einhvertíma á þig í þessu góða hverfi, gisti ávalt hjá dóttur minni þar, og fæ mér oft göngu um hverfið með litla nafna minn, og á leikvöllinn með hann. Fótbolti eitthvað til að rífast útaf.

Grétar Rögnvarsson, 27.2.2008 kl. 22:56

20 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Auðvitað meinti ég fólk ekki fól   skelltu nú rembingskossi á kallinn þinn í tilefni morgundagsins 1.feb.    X  10

Ásdís Sigurðardóttir, 29.2.2008 kl. 22:24

21 Smámynd: Bjarney Hallgrímsdóttir

Skemmtileg lesning þú ert bara snillingur

Bjarney Hallgrímsdóttir, 1.3.2008 kl. 09:18

22 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Þú ert nú alveg magnaður penni Guðný Anna, það er frábær mannkostur að geta velst um af hlátri af sínum eigin óförum og skemmt öðrum með . Bið að heilsa Skjöldu (kápunni ha ha)...

Kristbjörg Þórisdóttir, 1.3.2008 kl. 23:27

23 Smámynd: Berta María Hreinsdóttir

Frábær lesning....gaman þegar fólk hefur húmor fyrir sjálfum sér. Það er augljóslega alltaf nóg að gera hjá þér við að njóta lífsins. Haltu því áfram og endilega leyfðu okkur hinum að vera með hér á blogginu

Berta María Hreinsdóttir, 5.3.2008 kl. 21:13

24 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk fyrir kommentin, elskurnar mínar fögru.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 9.3.2008 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðný Anna Arnþórsdóttir
Guðný Anna Arnþórsdóttir

Netfang:                gudnya@regis.is
Önnur bloggsíða:   www.123.is/gudnyanna

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0469
  • IMG_0452
  • IMG_0468
  • 3778637139 2cd7aca945
  • 7 QUINOA SALADE MIYOU
  • 5  NOT IN PARIS WAITER
  • 3 CARETTE WHEE FR PPL GO
  • 2 quinoa paris

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband