Kveldúlfur er kominn í kellinguna mína

Alveg fer maður að sjá rúmið sitt í hillingum undir kveld á föstudegi. Hugsa sér að maður sé orðinn svo háaldraður, fúinn og fótlúinn að maður þiggi ekki síðdegissöngvatn í boði ráðuneytis. Dæs. Nei, bókin, bloggið og beddinn hafa vinninginn.  2007-03-08_153737

Ráðstefnan í gær og dag var hin ágætasta. Margt skemmtilegt og heillavænlegt að gerast í málefnum fatlaðra, svo mikið er víst. Fólkið okkar á SSR stóð sig með prýði.

Í fyrramálið er brunch hjá Sigurveigu. Þá verður nú gerð tilraun til að finna lausn lífsgátunnar. Og svo verður hlegið af hjartans lyst. Og borðað. Mikið verður nú hesthúsað, smjattað og sporðrennt. Er ekki gott að sumir hlutir eru svo dásamlega fyrirsjáanlegir?

 timbale2

Fuglarnir eru í óðaönn við að undirbúa árstíðaskipti og syngja nú á voginum, daginn út og kvöldið inn. Það er eins og þeir haldi að það sé vor í nánd.  Ég syng með þeim stundum. En stundum ekki.

IMG_2407_1_1_1

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Það er sko alveg þess virði að vera vel "tilbúin" í góðan brunch ..... Góða skemmtun og yndislega nótt!

www.zordis.com, 30.3.2007 kl. 23:11

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Njóttu vel ... það er svo gaman í bröns ... eða árdegisverði, eins og sumir vilja kalla það. Vona að ykkur takist að leysa lífsgátuna!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 31.3.2007 kl. 01:08

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæl Guðný Anna

Mátti til með að kvitta fyrir komuna. Lít hérna stundum. Við þekkjumst reyndar ekki, en ég er sonur Vilborgar Friðriksdóttur frá Eskifirði, dóttur Línu Kristmundar og Frissa Árna. Þarf varla að hafa fleiri orð um það. En gaman að kíkja og ég mátti til með að kvitta.

bestu kveðjur

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.3.2007 kl. 01:15

4 identicon

Þetta var góð morgunlesning.  Beddinn og bókin voru snemma valin hjá mér í gærkvöldi og svo oft gleðst ég yfir að eiga það val.  Er einmitt núna að lesa bókina um Stein Steinarr eftir þann merka mann Gylfa Gröndal og svo er maður náttúrlega í þessum forréttindahópi kennara sem er kominn í frí. 

Gaman að lesa hér línur eftir dótturson Línu.  Svona ,,hittingur" rifjar upp ýmislegt.  Myndin af henni í mínum huga er létt og snaggaraleg kona með bros á vör og Vilborgu sé ég fyrir mér með fallega liðað hár.  Þetta líf, þetta líf.  Ég veit að þið leysið lífsgátuna á snjallan hátt - bara efast ekkert um það.

Morgunfaðmlag

Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 08:14

5 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Vænt þykir mér um innlitskvitt ykkar, kæru bloggvinir mínir, Gurrí gúru, Zordís zkáld, Unnur Sólin eina vinkonan kæra og Stefán Friðrik.  Sérdeilis er gaman þegar bjartir skuggar fortíðar skjóta upp kollinum (já, ég held því fram að sumir skuggar séu bjartir...) Kæri Stefán Friðrik, ég man sko mikið vel eftir öllu þínu góða fólki, sem var mikið vinafólk foreldra minna. Við Unnur trítluðum litlar stelpur yfir rök gólf, þeagr hún amma þín skúraði Pöntunarfélagið af sinni alkunnu snilld og fór svo í kaffi og kleinur til mömmu á eftir. Ég hlustaði oft á þær tala og lærði mikið af því eins og öðru "vinkonuspjalli" á þeim árum. Amma þín var yndisleg kona. Mömmu þinni man ég meira en vel eftir og bið ofsalega vel að heilsa henni. Hann Frissi Árna, afi þinn, var daglegur partur af mínum uppvaxtarárum og einn þeirra manna, sem maður virikilega tók mark á. Síðast hitti ég hann fyrir allmörgum árum síðan, er ég var á ferð á Eskifirði og þar urðu fagnaðarfundir. Hann mundi eftir mörgum skondnum tilsvörum hjá mér þegar ég var enn minni en ég er núna (ótrúlegt).

Ja, nú datt maður aldeilis í melankólíupottinn, maður lifandi!

Well, farin að leysa lífsgátuna. Leyfi ykkur að fylgjast með, ef vitrænt út úr þessu kemur, sem er aldrei að vita með ólíkindatól eins og þessi....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 31.3.2007 kl. 10:09

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Kæra Guðný Anna

Takk kærlega fyrir þessi góðu orð um mitt fólk. Já, Lína amma var einstök kona. Hún gaf mér rosalega mikið. Ég ólst meira og minna upp hjá henni, enda bjó hún í kjallaranum hjá okkur og þar var ég meðan að mamma vann úti. Það var mjög mikill fjársjóður fyrir lífið sem ég lærði hjá henni, enda var amma sterk og einbeitt kjarnakona sem hlúði vel að sínu. Hún var ótrúlega dugleg, alltaf brosandi og glöð en hélt vel utan um sitt. Hún var trúuð og heil sínu. Gaf okkur systkinunum öllum svo mikið. Það var notalegt að geta hlúð vel að henni síðustu árin og gefið henni til baka ást, hlýju, kærleik og umhyggju, reyndar bara ögn af því sem hún gaf okkur, enda var það svo miklu meira virði.

Það eru nokkur ár síðan að hún dó, hún dó aldamótaárið og hún var jörðuð fyrir austan. Það ferðalag um hávetur var svolítið lærdómsríkt, mér og öllum okkar. Það var eins og beðið væri eftir henni. Þetta var í janúar. Það hafði verið kuldatíð fram að áramótum en skyndilega viku áður en hún dó gerði hláku og allt varð marautt. Dagurinn fyrir austan, 22. jan, var bjartur og fagur. Ótrúlega gott veður þegar að athöfnin fór fram. Á mánudeginum byrjaði svo að snjóa og kom mjög vont veður. Þetta var merkilegt, allavega eitt ógleymanlegt í minningabankann. En þetta gaf okkur allavega góða kveðjustund í góðu veðri, enda er ekki á vísan að róa um hávetur með slíkt.

En já, Frissi afi var mjög merkur maður. Hann var auðvitað orðinn háaldraður er ég man eftir honum, en mér þótti mjög vænt um hann. Sumir ættingjar mínir segja að ég sé jafntrúr Sjálfstæðisflokknum og hann, hafi erft það þaðan. Það má meira en vel vera. Ég er fæddur 1977, svo að ég var ekki nema þrettán ára þegar að hann dó. Man því alltof lítið eftir honum, en þess þá meira Valda og Stínu og fólkinu þar, en hann var orðinn ern er ég man eftir mér. En hann var mjög vandaður maður og vel gerður.

Mamma sagði mér einu sinni að amma hefði verið eina manneskjan sem pabbi þinn hefði treyst fyrir lyklum að Pöntunarfélaginu fyrir austan. Það segir mér mjög margt, en amma var alveg ótrúlega heil og vönduð. Satt best að segja mun ég aldrei skilja hvernig hún komst yfir allt sitt. Hún var ein með þetta heimili og hlúði að börnum og foreldrum með alveg ótrúlega flottum hætti. Myndirnar af mömmu og Hjálmari sýna mér flott föt og fallegan aðbúnað. Þeim skorti ekki neitt, en ég veit að hún vakti margar nætur til að allt kæmi saman. Þetta er einn af leyndardómum lífsins sem ég hef mikið hugsað um. Hún var stolt kona, ekta kjarnakona.

En já, nóg sagt. Þótti svo vænt um að lesa skrifin þín. Það er enginn vafi að mörgum þótti vænt um hana ömmu, enda gaf hún svo mikið af sér. Hún er sennilega mesta og besta lífsfyrirmyndin mín. Það var ekki amaleg fyrirmynd, enda stóð engin persóna ofar í mínum huga.

Ég er ekki í vafa um að mamma hugsar vel til þín, ég skal skila kveðjunum. Eflaust hefurðu gaman af að sjá mynd af mömmu en það er ein hér í myndasafninu mínu á netinu. Mynd frá haustinu 2005. Þú hefur eflaust gaman af því.

Kærar kveðjur og þakkir fyrir skrifin. Þakka líka Unni Sólrúnu fyrir að lýsa ömmu eins og ég man hana, notaleg orð. Ég á eftir að vera reglulegur gestur á vefnum hjá þér kæra Guðný Anna.

vorkveðjur frá Akureyri

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.3.2007 kl. 12:48

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Finnst vænt um að þú deilir þessum hugsunum með mér. Og gaman að fá linka á myndirnar af þeim. Sé þau sem farin eru alveg ljóslifandi fyrir mér.  Og þekki mömmu þína auðvitað vel af myndinni - takk innilega fyrir. Ég sé augun í ömmu þinni fyrir mér, en þau voru svo litbrigðarík, skýr og skiljandi. Ég veit að þú veist um hvað ég er að tala! Frábært að vera komin í samband. Ég verð líka gestur hjá þér.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 31.3.2007 kl. 13:48

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

....gangi ykkur vel að leysa lífsgátuna - ég er búin að því, hringiði bara ef þið lendið í vandræðum

tíhíhíhíhí

Hrönn Sigurðardóttir, 31.3.2007 kl. 14:20

9 identicon

Háöldruð ertu, hafna söngvatninu og elska hve lífið er fyrirsjáanlegt.  Ég er alveg sammála þér .........  öðru vísi mér áður brá.  En hvert aldursskeið hefur sinn sjarma og "snart bliver kaffet klar".  kveðja

Þóroddur (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 18:39

10 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég hlakka ósegjanlega til að hitta þig Guðný Anna. Ég heyri á öllu að við eigum margt sameiginlegt við verðum að fara að mæla okkur mót upp frá hjá Gurrí.

Steingerður Steinarsdóttir, 31.3.2007 kl. 23:55

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk fyrir skilninginn á öldrunareinkennum mínum, góðu vinir. Ójá, snart bliver kaffen klar...á það er maður minntur stöðugt. Já, ég er farin að hlakka til að koma í Himnaríki til Gurríar - og hitta ykkur báðar!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 1.4.2007 kl. 16:53

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, augun hennar ömmu voru alveg gríðarlega falleg. Nákvæmlega eins og þú lýsir þeim. Þakka þér fyrir þessi góðu orð.

Mamma biður fyrir alveg gríðarlega góðar kveðjur til þín. Hún er nú ekki farin að blogga enn, er ekki alveg sú tæknivæddasta en notar stundum tölvur þó. Þarf að taka sig á í nútímavæðingu :)

bestu kveðjur

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.4.2007 kl. 23:49

13 identicon

Ég má bara til að blanda mér inn í umræðuna um Línu Kristmundar.

Einhverju sinni skaust ég í kaffit til Línu eftir að hæun var flutt úr Ási og í húsið hennar Lukku. Lína var að steikja kleinur eins og hún gjarnan gerði og því fékk ég mér mjólk en ekki kaffi. Með mér til borðs sat Kristmundur, bróðir Stebba.  Skömmu síðar kom Una sáluga  í heimsókn og fékk að sjálfsögðukaffi og kleinur líka.

Er við höfðum setið að góðgerðunum nokkra stund býður Lína Unu að fá sér meira af kleinunum. Una bað guð að þakka henni boðið og sagðist vera búin að borða tvær kleinur og það nægði.   "Þú lýgur því Una. Þú ert búin að éta fimm kleinur", sagði  þá Kristmundur. 

Dunni (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðný Anna Arnþórsdóttir
Guðný Anna Arnþórsdóttir

Netfang:                gudnya@regis.is
Önnur bloggsíða:   www.123.is/gudnyanna

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_0469
  • IMG_0452
  • IMG_0468
  • 3778637139 2cd7aca945
  • 7 QUINOA SALADE MIYOU
  • 5  NOT IN PARIS WAITER
  • 3 CARETTE WHEE FR PPL GO
  • 2 quinoa paris

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband