Minning um vinkonu

Friðrika Jóhannesdóttir f. 23.09.1916 - d. 16.03.2007
Það er oft heiðríkja yfir Háteigsveginum.

Innandyra á númer 28 hefur heiðríkja huga og hjarta ríkt áratugum saman. Mér hefur alltaf þótt sérstakur stíll yfir því að búa við Háteigsveg númer 28 og hafa símanúmerið 10748, sem síðar breyttist í 551-0748. Þegar Guðbrandur svaraði með sinni alkunnu bassaraust í símann, vissi maður að hnötturinn héldi áfram að snúast, - allavega þann daginn. Síðar hætti hann að svara í símann - og Fía tók við. Og hnötturinn hélt áfram að snúast. Alltaf tók hún þeim sem hringdi innilega. Þá tók hún gestum og gangandi ekki síður fagnandi og fannst alltaf hér áður fyrr, að þá væri nú tækifæri til að gera sér glaðan dag yfir mat, drykk, kaffi og kruðeríi.
Fía var einstaklega æðrulaus, jafnlynd, hreinlynd og tilgerðarlaus manneskja. Hún yfirvegaði hlutina, komst að sinni niðurstöðu og hélt jafnan þétt við hana, jafnvel þó viðmælandi væri ekki alltaf sammála. Fyrst þegar við kynntumst var ég ung og afskaplega viss um að ég hefði talsvert vit á flestum hlutum. Þá greindi okkur stundum á um marga grundvallarþætti tilverunnar. “Ykkur unga fólkið skortir yfirsýn og víðsýni” sagði hún gjarnan af sinni einlægu hreinskilni - og hafði vitanlega rétt fyrir sér. Það sem mér fannst þetta nú skortur á þessum sömu þáttum hjá henni! En það var þá. Eftir því sem árin liðu komst ég betur og betur að því, hvern mann Fía hafði að geyma. Og hvílíkur maður. Það sem mér fannst áður vottur af galla hjá henni, fór mér að finnast hinn mesti kostur.
Með árunum nálguðumst við í viðhorfum, yfirsýn og skilningi og gátum betur skilið sjónarhorn hvorrar annarrar. Við gátum rætt um lífið í fjölleikahúsi, úrtöku fyrir hæl á leista, kenningar Helga Pjéturss eða bara framvinduna í síðdegissápu sjónvarpsins. Við ræddum lífið í breidd og lengd og stundum endalok þess líka. Síðustu misserin drukkum við gjarnan Neskaffi með þessum samræðum og fannst báðum gott.
Heimili þeirra Fíu og Guðbrandar var heimur út af fyrir sig. Nostursemi, kærleikur og virðing fyrir lífinu birtust þar í uppröðun hluta, fjölskyldumyndum, bókasafni, gömlum leikföngum og listaverkum eftir barnabörnin. Ró, friður, jafnvægi, stöðugleiki, kaffilykt, hlýja. Rigning bylur á glugga og útvarpið malar. Guðbrandur dottar í græna stólnum en veit samt alveg hvað er í fréttum, og Fía bograr í gufumettuðu eldhúsinu við að undirbúa einhverja dýrlega magafyllina. Hvílíkar minningar.
Þessu heimili gleymir maður aldrei og ekki heldur húsbændum þar, glæsilegum, gáfuðum hjónum, fremstum meðal jafningja.
35 ár skildu okkur Fíu að í aldri og í 37 ár stóð okkar vinátta. Aldrei bara á hana skugga, hvort heldur það gaf á bátinn eða siglt var á sléttum sjó. Fölskvalausari, dýrmætari og traustari vináttu getur enginn átt.
Hjartfólgin vinkona er nú kært kvödd og henni þakkað fyrir allt það sem hún var mér og mínum. Lífið var henni gjöfult og hún lifði því af stolti, æðruleysi og þakklæti. Það munum við hugga okkur við, þegar söknuðurinn sækir að.

Og heiðríkja er yfir Háteigsvegi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Falleg orð hjá þér, elskan mín. Mikið hefur þetta verið góð vinkona. Ég samhryggist þér innilega. Kærar kveðjur af Skaganum!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 23.3.2007 kl. 22:51

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk, krúttið mitt. Föstudagskveðjur yfir flóann með tjaldinum....heyrði í honum í fyrradag.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 23.3.2007 kl. 23:06

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Fallegar og mikilvægar minningar. Leyfum vinum okkar að kveðja með stæl og fljúga burtu frjálsum. Bara með meðbyr góðra hugsana í farteskinu. Enga öngla sem halda og vilja ekki sleppa. Frelsi og fögnuð yfir þeirra nýju heimkynnum. Blessun. Og vitund um að einn dag munum við sjást aftur og heilsast eins og sést hefðumst í gær.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 23.3.2007 kl. 23:12

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég samhryggist

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.3.2007 kl. 23:54

5 Smámynd: www.zordis.com

Alltaf erfitt að sjá á eftir mikilvægum persónum, alltaf tregi í hjartanu.  Minningarnar eiga eftir að ilja ykkur báðum hvor á sinn háttinn. 

www.zordis.com, 24.3.2007 kl. 08:44

6 identicon

Elsku Guðný.  Það eru auðæfi að hafa átt svona konu að og ég samhryggist þér og fjölskyldunni að hún sé horfin.  Þetta eru falleg eftirmæli og lýsa bæði þér og henni.

Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðný Anna Arnþórsdóttir
Guðný Anna Arnþórsdóttir

Netfang:                gudnya@regis.is
Önnur bloggsíða:   www.123.is/gudnyanna

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_0469
  • IMG_0452
  • IMG_0468
  • 3778637139 2cd7aca945
  • 7 QUINOA SALADE MIYOU
  • 5  NOT IN PARIS WAITER
  • 3 CARETTE WHEE FR PPL GO
  • 2 quinoa paris

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband