Svartir bílar og gamlar peysur

Það er margt milli himins og jarðar. Til dæmis finnst mér það fjári furðulegt, að þegar ég keyrði sem leið liggur yfir snæviþakta jörðina (fór nú reyndar að mestu veginn sem ætlaður er fyrir ökutæki) til Keflavíkur í dag, keyrði svartur bíll fyrir framan mig alla leiðina suðreftir og lagði rétt hjá mér fyrir utan Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ég missti af manninum við stýrið. Á leiðinni heim...var hann ekki bara kominn aftur fyrir framan mig eins og ekkert hefði í skorist. Hann beygði svo út af við Ásahverfið í Hafnarfirði og þá skildu leiðir okkar. Þetta væri nú ekki í frásögur færandi nema af því að sami bíll stóð hér útá bílastæði í sólarhring um daginn - og fyrir utan vinnuna mína í síðustu viku. Ætli einhver sé að njósna um mig? Eða er þetta leynilegur aðdáandi sem fylgir mér hvert sem ég fer? Eða er þetta huldumaður á huldubíl, sem einungis ég sé? Þetta í miðjunni er framar öðru trúanlegt. Mikið lifandis óskapar feykna fegurð upplifði ég á leiðinni á Suðurnesin í dag. Heimurinn var allur hvítur og falllegur, sólin skein og fjallasýnin var guðdómleg. Til að auka á stemmninguna spilaði ég Chopin og Chaplin ("Smile though your heart is aching") á hæsta styrk .... Yndisleg ferð í alla staði og stoppið líka. 

Svo finnst mér algerlega óskiljanlegt þegar hjartasérfræðingur góðrar vinkonu minnar og fyrrum mágkonu er litli strumpurinn sem ég keyrði í kerru fram og aftur um götur Eskifjarðar í árdaga. Og sparkaði með snjáðum bolta á fótboltavellinum þegar hann var farinn að geta notað fæturna. Einu sinni fannst mér hann eiga svo ó-sveitaleg og avanseruð föt (mamma hans var smekkleg og elsk að tísku og fögru útliti, enda sérdeilis fögur kona), að ég prjónaði á hann einu peysuna sem ég hef gert á ævinni og hann tók slíku ástfóstri við gripinn, að það þurfti að sæta lagi að þvo hann, þá sjaldan strumpur svaf. Hann er semsé farin að nota ýmislegt annað en bara fæturna og ætlar að skera mína hjartkæru fyrrum mágkonu upp, svo að við fáum að hafa hana mikið lengur hérna hjá okkur. Hann á eftir að launa mér peysuna atarna.

Yfirspekingur fjölskyldunnar segir mér að það sé ekkert undarlegt við þetta, það komi þarna alþekkt fyrirbæri við sögu, sem nefnt hafi verið tími eða time, zeit og tid, svo einhver tungumál séu nú týnd til. Alltaf þarf einhver að eyðileggja fyrir manni mystikina.

100_2225


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Forlögin eru ekki alltaf gráglettin. Stundum bara glettin og góð eins og í tilfelli Hjartasérfræðingsins og vinkonu þinnar.

Ég man sögu sem gamall maður sagði mér um ungan pilt, sem átti erfitt og bað um vinnu í virkjun, sem kallinn var verkstjóri í.  Það vantaði ekki mannskap og ásókn í þessa vinnu var mikil en sá gamli sá auman á honum, svo hann réði hann.  Þetta reyndist besti starfskraftur, sem svo felldi hugi við eldabuskuna á staðnum.  Mörgum árum síðar kom dóttir gamla mannsins til hans og kynnti fyrir honum kærasta sinn, sem síðar varð maður hennar. Þá kom í ljós að kærastinn var sonur atvinnuleysingjans og eldabuskunnar frá árum áður, svo sá gamli átti nokkurn þátt í tilvist hans.

Sá gamli sagði mér þessa sögu og að hann væri ævarandi glaður yfir mildi sinni forðum, þegar hann fær heimsóknir frá litlu barnabörnunum sínum, sem gefa honum gleði tilgang og lífskraft. 

Er ekki lífið yndisleg gáta?

Jón Steinar Ragnarsson, 10.2.2007 kl. 07:47

2 Smámynd: www.zordis.com

Það er eins gott að, umvefja aðra kærleik og vináttu, bommerang áhrifin eru vissulega í stöðugri sveiflu!  Á myndinni sé ég Barnaskólann og gott ef glyttir ekki í æskuheimilið, þó til skamms tíma!  Eskifjörður framkallar minningar og er einn af þeim stöðum sem iljar þegar gullkistan er skoðuð! 

www.zordis.com, 10.2.2007 kl. 09:29

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Jú. Dóttir mín var á leið til íslands einu sinni og kom aðeins of seint á flugvöllinn. Alveg nægilega seint þó til að vera ekki hleypt um borð í vélina og missti þess vegna af fluginu og varð að bíða í 8 tíma eftir næsta. Þar kom að fallegur skoskur lögreglumaður og bauð henni kaffi. Stytti henni stundir með góðu spjalli þar til næsta flug var komið. Dóttir þeirra heitir Alice Þórhildur. Lífið er yndisleg óræðin gáta sem er samt svo augljós þegar maður sér.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.2.2007 kl. 09:31

4 identicon

Þetta með huldumanninn.....held ég væri lögst í rannsóknarvinnu t.d. hver á bílinn o.s.frv.  Berðu fyrrv. mágkonu þinni baráttukveðjur mínar og guð gefi peysudrengnum alla hans færni til að lækna hana.

Kveðja Gunna.

Guðrún Þórðardóttir (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 10:58

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Merkileg saga um svarta bílinn. kannski er þetta einhver verndari þinn sem er að passa upp á að allt sé í lagi hjá þér. Sendi batakveðjur til fyrrv. mágkonu þinnar.

Svava frá Strandbergi , 10.2.2007 kl. 12:49

6 Smámynd: SigrúnSveitó

Eskifjörður??!!!  Ertu eskfirðingur...a la útsæðisæta...??!!! 

SigrúnSveitó, 10.2.2007 kl. 13:21

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Frábær saga og dásamleg komment! Finnst þér ekki meira líf á Moggablogginu? Hehehhehe! Ég er farin að líta á bloggvinina mína sem hluta af fjölskyldunni ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 10.2.2007 kl. 13:28

8 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Þakka ykkur fyrir þessar frábæru sögur um glettni og yndislegheit örlaganna, kæru bloggvinir! Það væri gaman að safna svona sönnum sögum úr tilverunni saman í bók. Kannski maður geri það einhvern tímann þegar vinnan hættir að slíta svona sundur dagana fyrir manni.........Jú, Gurrí, Moggabloggið er skemmtilegt og frábært að komast í gott kompaní við svona gott fólk, eins og t.d. er að deila sínum hugsunum hér!  Já, þetta verður einskonar fjölskylda. Ég stóð mig að því í gær um fimmleytið, stödd í opnunarkokkteil, að hugsa: "Fja..nú kemst ég ekki til að kíkja á bloggið fyrr en seinna í kvöld..."!! ......... Eskifjörður já, fallegasti staður á Planet Earth, nema Klettafjöllin við Boulder, Colorado.... Hvar bjóstu á Eskifirði Zordis?? ......... Bíllinn svarti já. Kannski er þetta verndari, fallega hugsað. En - ef þetta gerist einu sinni enn (og ég mun muna þetta bílnúmer þar til ég öndina upp gef....) ÞÁ fer ég í bifreiðaskrána og svoleiðis.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 10.2.2007 kl. 14:19

9 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

PS: Sigrún kæra verðandi spjallvinkona í Himnaríki (Akranes-himnaríki sko, ekki hinu...við eigum eftir að skipuleggja það..) - því hefur verið logið á Eskfirðinga, mestmegnis af afbrýðisömum Reyðfirðingum, að þeir hafi étið útsæðið á árum áður, þegar sulturinn svarf að. Reyðfirðingar gátu aldrei unnt Eskfirðingum þess hvað þar var nú afbragðs skemmtilegt fólk sem alveg óvenju gefandi og geðheilbrigðishvetjandi hugarfar- og svo sátu þeir ekki Hólmatindinn. Maður verður nú að skilja þetta. Eiginlega gerum við Eskfirðinar það........

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 10.2.2007 kl. 14:22

10 Smámynd: SigrúnSveitó

hehe...já er sagan komin frá afbrýðisömum Reyðfirðingum??!!  Hlaut að vera...

En verð að segja; Norðfjörður er samt fallegastur

SigrúnSveitó, 10.2.2007 kl. 15:47

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Elskan mín, hvað þú ert á miklum villigötum. Norðfjörður er vissulega í top 3, en ekki fallegastur. Þetta er sko rökræða með tilfinningaívafi, fordómum, forheimskvun og krúttlegheitum, sem er ég sérfræðingur í....Þú rekur mig ekki á gat þegar Eskifjörður er í umræðunni....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 10.2.2007 kl. 15:54

12 Smámynd: www.zordis.com

Heitir það ekki hólgata þarna rétt við skólann .....  Bjó fyrst á Tungötu 5 minnir mig og svo flutti familían í æðislegt hús með fallegu útsýni.  Ég er s.s. í "Sjólistarættinni" ef það segir eitthvað.    á fullt af skyldmennum sem þar búa, bæði hrekkjótt fólk og dignað!

www.zordis.com, 11.2.2007 kl. 11:46

13 Smámynd: SigrúnSveitó

hihi...ég þræti ekki, nenni því ekki.  Eins og vitur maður sagði eitt sinn; Wonna be happy or wonna be right?!!

SigrúnSveitó, 11.2.2007 kl. 20:57

14 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Þetta er nú allt í miklu gríni Sigrún sveitamær. Auðvitað ræðir maður ekki í fullri alvöru um hvaða staður er fallegastur....!! Þetta er bara svo fyndið diskússjónsefni milli staða fyrir austan og ótrúlegt hvað maður lét sig hafa miklar þrætur útaf málinu!  Rígurinn er fyrir hendi, að vissu marki, en allir standa saman út á við og þegar gefur á bátinn! Austfirðir er yndislegur landshluti og Austfirðingar (NB með stórum staf) eru yndislegt fólk.

Ég þekki Sjólistarættina, allavega marga af henni. Fráæbrt, sæl Eskfirðingartengda kona!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.2.2007 kl. 22:03

15 Smámynd: www.zordis.com

Já, finst þér ég vera voguð að viðurkenna þetta   Ausfirðir eru dásamlega fallegir og koma stundum til mín í draumi.

www.zordis.com, 12.2.2007 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðný Anna Arnþórsdóttir
Guðný Anna Arnþórsdóttir

Netfang:                gudnya@regis.is
Önnur bloggsíða:   www.123.is/gudnyanna

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_0469
  • IMG_0452
  • IMG_0468
  • 3778637139 2cd7aca945
  • 7 QUINOA SALADE MIYOU
  • 5  NOT IN PARIS WAITER
  • 3 CARETTE WHEE FR PPL GO
  • 2 quinoa paris

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband